Bilið minnkar á milli WOW air og Icelandair þegar litið er til fjölda brottfara á Keflavíkurflugvelli í júní. Í samanburðartölum sem birtar eru á vef Túrista yfir vægi stærstu flugfélaganna á Keflavíkurflugvelli í júní kemur í ljós að hlutfallið dregst töluvert saman á milli WOW air og Icelandair.
Árið 2013 töldu vélar Icelandair ríflega 70% allra brottfara á Keflavíkurflugvelli í júní og WOW air með um 15%, en í ár er munurinn minni. Icelandair er með um 53% en WOW air er að nálgast 25%. Önnur flugfélög, EasyJet, SAS og Delta, hafa haldist nokkuð stöðug síðustu ár.
Alls flugu 24 flugfélög til og frá Keflavíkurflugvelli í júní sem er þremur fleiri en á sama tíma í fyrra. Ferðafjöldinn jókst um nærri fimm hundruð frá því í júní á síðasta ári og má rekja helminginn til aukinnar umsvifa WOW air en Icelandair bætti einnig við töluvert af ferðum, en í júní voru að jafnaði farnar 95 áætlunarferðir á dag.