Donald Trump Bandaríkjaforseti virðist nánast hamstola af reiði í garð fjölmiðla sem hann telur að hafi hallað á sig með fölskum og upplognum fréttum.
Þar er sjónvarpsfréttastöðin CNN fremst í flokki.
Fyrir stundu lagði forsetinn út á Twitter stutt myndband sem sýnir hvernig hann gengur í skrokk á manni sem ber merki CNN í höfuðs stað:
#FraudNewsCNN #FNN pic.twitter.com/WYUnHjjUjg
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 2, 2017
Með myndbandinu fylgja svokölluð myllumerki sem uppnefna CNN sem falsfréttastöð.
Þetta myndband mun upphaflega hafa verið gert þegar Donald Trump var gestur á glímukeppni (wrestling) árið 2007 og á að sýna sýndarslagsmál sem Trump tók þátt í þar.
Bandaríkjaforseti hefur farið mikinn upp á síðkastið gegn fjölmiðlum með tístum sínum. Hér er eitt dæmi:
I am thinking about changing the name #FakeNews CNN to #FraudNewsCNN!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 1, 2017
Það hefur lengi verið vitað að Donald Trump telji á sig hallað í umfjöllun margra fjölmiðla um sig. Steininn virðist þó hafa tekið úr í reiði forsetans eftir að þrír blaðamenn CNN sögðu upp störfum í kjölfar þess að sjónvarpsstöðin birti grein um tengsl forsetans við Rússa sem ekki var studd nægilega traustum heimildum. Þá tísti Trump:
I am extremely pleased to see that @CNN has finally been exposed as #FakeNews and garbage journalism. It's about time!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 1, 2017
Trump hefur sætt gagnrýni undanfarið fyrir notkun sína á Twitter-samskiptavefnum. Hann hefur svarað með því að segja að þetta heyri undir nútíma starfshætti forseta. Í gær sendi forsetinn frá sér þetta tíst:
My use of social media is not Presidential – it’s MODERN DAY PRESIDENTIAL. Make America Great Again!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 1, 2017