Þeir sem kvarta undan veðrinu á Íslandi geta huggað sig við að varla vildu þeir vera í óbærilegum hita. Eftir ágætis veður á Grikklandi undanfarið, hita um 25 stig hér á eyjunni, er skollin á ógurleg hitabylgja. Það eru suðlægir vindar ríkjandi, þeir blása frá eyðimörkum Afríku, það kemur mistur í loftið og mikil molla.
Annars eru í Eyjahafinu að sumarlagi oft ríkjandi norðanvindar sem eru nokkuð svalir, geta orðið býsna hvassir svo minni skip eiga í vandræðum með að sigla. Meltemi vindurinn sem blæs á sumrin stafar af háþrýstisvæði yfir Balkanskaga og lágþrýstisvæði yfir Tyrklandi. Þrátt fyrir hvassviðri getur hann verið líkt og bjargvættur á heitum sumrum. Veitingastaðir og hótel út um Eyjahafið bera nafn hans – Meltemi.
En hitinn hérna er í annarri deild en það sem gerist uppi á meginlandinu og í Aþenu. Hérna er hann kannski 33-34 stig en í Aþenu er að mælast hiti upp í 44 stig. Ekki bætir úr að ruslakarlar þar hafa verið í verkfalli sem leystist ekki fyrr en í gær. Það tekur tíma að vinna á illa þefjandi sorphrúgum. Og svo les maður fréttir um deildir á sjúkrahúsum í borginni þar sem er engin loftkæling. Kreppan fer ekki framhjá neinum sem kemur til Aþenu – en úti á eyjunum og á ferðamannastöðum verður hennar miklu síður vart. Það er von á metári í túrisma í Grikklandi.
Maður þarf svosem ekki að kvarta, verandi nálægt sól, sjó og sundlaug – og hafandi nóg að drekka, ferska ávexti og ís. Hitabylgjan á að ganga yfir um helgina, á mánudaginn verður ívið kaldara og eftir það er spáð að hann leggist í norðanátt – Meltemi fer þá að blása. Og þá þarf maður að pæla í hvort skipið sem maður ætlaði að taka far með siglir eða ekki.
Hér er svo lag þar sem er aðeins fjallað um loftslagið eins og það er á þessu svæði núna. Þetta er Carey, af plötunni Blue með Joni Mitchell. Hún byrjar á að syngja að vindurinn komi frá Afríku og hún geti ekki sofið. Þetta er byggt á dvöl Joni sjálfrar í þorpinu Matala á Suður-Krít.