Breski Íhaldsflokkurinn hefur náð samkomulagi við norður-írska DUP flokkinn um að verja minnihlutastjórn Theresu May út kjörtímabilið. Í skiptum fyrir að útvega Íhaldsmönnum meirihluta á þingi fá Norður-Írar einn milljarð punda í styrki á næstu tveimur árum. DUP er með tíu þingmenn en Íhaldsflokkurinn með 317, 326 þingmenn þarf til að vera með meirihluta á breska þinginu.
DUP lofar að styða Íhaldsflokkinn í öllum þingmálum tengdum Brexit, úrsögn Bretlands úr Evrópusambandinu, og málum tengdum þjóðaröryggismálum. Lofar Theresa May, leiðtogi Íhaldsflokksins, að samið verði við ESB um að halda landamærum Norður-Írlands og Írlands áfram opnum „ef það er í samræmi við óskir fólksins“ eins og það er orðað í samkomulaginu.
Arlene Foster leiðtogi DUP var hæstánægð þegar hún ræddi við blaðamenn fyrir utan Downingsstræti 10 í morgun:
Samkomulagið mun tryggja stöðuga ríkisstjórn í Bretlandi á þessum mikilvægu tímum,
sagði Foster og bætti við:
Í kjölfar viðræðna okkar við Íhaldsflokkinn þá hafa þeir viðurkennt að það þurfi að auka fjárveitingar til Norður-Írlands í ljósi einstakrar sögu okkar og aðstæðna á liðnum áratugum.
Ekki eru allir innan Íhaldsflokksins á eitt sáttir við að þurfa að semja við DUP, sagði Patten lávarður í samtali við Independent í morgun að hann óttaðist að Íhaldsflokkurinn fengi á sig slæman stimpil vegna samstarfsins við DUP sem hefur sett sig á móti fóstureyðingum og hjónaböndum samkynhneigðra.