Theresa May forsætisráðherra Bretlands og leiðtogi Íhaldsflokksins hefur tekist að semja við norður-írska DUP-flokkinn um ríkisstjórnarsamstarf þar sem May verður áfram forsætisráðherra. Arlene Foster leiðtogi DUP sagði í kjölfar fundar við May í Downingsstræti í morgun að hún væri himinlifandi með niðurstöðuna.
May segir að Íhaldsflokkurinn og DUP séu samstíga í mörgum málum og búast megi við farsælu samstarfi. DUP er mjög umdeildur flokkur, hans aðaláhersla er áframhaldandi aðild Norður-Írlands að Bretlandi en hefur einnig sýnt mikla andstöðu við fóstureyðingar og hjónabönd samkynhneigðra. Þegar May boðaði til kosninganna í apríl síðastliðnum benti fátt til annars en að hún myndi styrkja stöðu sína og gæti því farið í viðræður við Evrópusambandið um úrsögn Bretlands úr sambandinu með fullt umboð.
Sjá frétt: Bretar kjósa í júní
Það mistókst og þrátt fyrir að hafa bætt við sig atkvæðum frá kosningunum 2015 þá tapaði Íhaldsflokkurinn meirihluta sínum á þingi og þurfti því að leita á náðir DUP.
Sjá frétt: Íhaldsflokkurinn missir meirihluta á breska þinginu
May hljómaði þó ánægð í morgun:
Við viljum sjá öruggt og stórt Bretland, við viljum tryggja að hér sé sterk stjórn við lýði sem getur komið hlutum í verk, ekki einungis Brexit-samningaviðræðunum heldur einnig að tryggja öryggi landsins. Samkomulag okkar er mjög, mjög gott, og ég hlakka til að vinna með þeim.