Í dag er einn mánuður liðinn frá opnun verslunar Costco í Kauptúni. Costco hefur vægast sagt fengið góð viðbrögð hjá íslenskum neytendum en nýleg könnun MMR leiddi í ljós að nærri helmingur landsmanna 18 og eldri væri búinn að fara í Costco. Síðasta sumar kom út skýrsla ráðgjafarfyrirtækisins Zenter sem sagði að Costco myndi hafa mikil áhrif á rekstur innflutningsfyrirtækja, fréttir um skýrsluna vöktu mikla athygli á sínum tíma sem varpar ljósi á hversu spenntir neytendur voru fyrir komu verslunarrisans hingað til lands.
Sjá frétt: Innkoma Costco á íslenskan markað mun hafa veruleg áhrif
Sjá frétt: Mikil mistök að vanmeta Costco
Í skýrslu Zenter var farið yfir helstu staðreyndir um starfsemi fyrirtækisins og þau gögn notuð til að spá fyrir um áhrifin hér á landi, var því spáð að Costco myndi þrýsta niður verði á matvöru og öllum þeim vöruflokkum sem fyrirtækið verslar með. Bjarki Pétursson sölu og markaðsstjóri Zenter var einn höfunda skýrslunnar, blaðamaður Eyjunnar fór með honum í Costco og ræddi við hann um áhrif verslunarinnar á markaðinn og hvort um sé að ræða tímabundið æði sem runnið sé á neytendur.