Eftir því sem flugfargjöldin lækka, tilboðunum fjölgar og fleira fólk ferðast, verður flugið óþægilegri ferðamáti. Við erum fæst til í að eyða miklum peningum í flugmiða og megum því sæta því að ferðast í þröngum flugvélum, þurfum að borga sérstaklega fyrir ferðatöskur, mat og allt aukalegt – það er löngu liðin tíð að var einhver ljómi yfir flugferðum. Við ferðumst um yfirfulla flugvelli þar sem við lendum oftar en ekki í biðröðum og þurfum að fara í gegnum afar hvimleiða öryggisgæslu.
Á þessu ári hefur maður heyrt sérstaklega mikið kvartað undan flugi, bæði utanlands og innan. Það hafa komið upp atvik í flugvélum erlendis sem hafa orðið fréttamatur út um allan heim – eins og þegar farþeginn var dreginn frá borði hjá United Airlines. Á Íslandi heyrir maður stöðugt af flugvélum sem eru alltof seinar, farþegum sem lenda í hrakningum vegna þessa, þurfa að dúsa tímum saman inni í vélum á flugvöllum – og svo flugi sem er aflýst á síðustu stundu. Ég lenti um daginn í því að fá tilkynningu um að flugmiði sem ég hafði keypt með mjög þægilegum brottfarartíma á miðjum morgni hefði fyrirvaralaust verið breytt í næturflug. Maður sættir sig illa við slíkt.
Í þessu sambandi getur verið forvitnilegt að skoða netsíðu eins og þessa – Skytrax. Þar skrifa notendur umsagnir um flugfélög og þjónustu þeirra. Við getum til dæmis séð að Vueling – sem þvældist með íslenska farþega milli Barcelona, Edinborgar og Keflavíkur í skelfilegum óþægindum – fær afleita dóma. Fólk ætti kannski að hugsa sig um tvisvar áður en það kaupir miða með þessu félagi.
Við getum líka séð að dómarnir sem hið íslenska Wow Air fær eru ansi slæmir. Fólk kvartar undan þjónustuleysi, huldum kostnaði, miklum þrengslum og því að engin leið sé að fá nein svör frá flugfélaginu. Svipað er uppi á teningnum með Wow í umsögnum á Tripadvisor og Yelp. Miðað við þetta spyr maður hvort Wow þurfi ekki að taka starfsemina aðeins til endurskoðunar – eða hvort það sé beinlínis stefna að reka félagið á þessum grundvelli?
Icelandair fær svosem ekki frábæra dóma, en þó mikið betri en Wow. Ef flugbókunarsíður eru athugaðar má sjá að þessi tvö félög bjóða upp á einhverjar ódýrustu ferðir milli Evrópu og Bandaríkjanna sem völ er á – með millilendingu á Íslandi. Manni skilst jafnvel sá að draumurinn sé að gera Ísland að flugmiðstöð Atlantshafsins, eins konar Dubai norðursins. En þá þurfa flugfélögin auðvitað að rísa undir nafni.