Eftir seinni heimsstyrjöld var um fimmtíu þúsund tonnum af eiturefnavopnum kastað í hafið undan ströndum Noregs.
Í sumum tilfellum voru gömul og aflóga skip úr stríðinu fulllestuð af slíkum vítisvélum, þau dregin til hafs og sökkt undan ströndum Suður-Noregs. Á um 200 ferkílómetra hafsvæði suðaustur af bænum Arendal er búið að finna 36 slík skipsflök á hafsbotni.
Skipsflökin liggja á 500 til 600 metra dýpi og eru mörg hver illa farin. Sprengikúlur með eiturefnum liggja víða á dreif. Þær geyma stórhættuleg efni á borð við sinnepsgas, arsen og taugaeitur.
Rannsóknastofnun norska hersins vinnur nú að því að fá betri yfirsýn varðandi efnavopn sem kastað var í hafið við Noregsstrendur eftir seinni heimsstyrjöld. Í sumar verður reynt að mynda skipsflökin með fjarstýrðum kafbátum og sýni tekin af hafsbotni og úr lífríki til að kanna hvort eiturefni leki út í umhverfið og mengun hafi breiðst út. Margir hafa áhyggjur af því að tæring á skipsflökunum og umbúðum eiturefnanna eftir sjötíu ár á hafsbotni leiði til meiriháttar umhverfistjóns.
Við erum nú að safna gögnum. Hingað til höfum við ekki fundið nein merki sem benda til þess að efnaleki frá skotfærum hafi merkjanleg áhrif á umhverfið í kringum flökin. Hættan er mest ef togarar fá skotfæri í botnvörpurnar. Við höfum reyndar séð leifar og netadræsum úr botnvörpum á hluta þessara skipsflaka. Við getum ráðlagt að veiðar séu ekki stundaðar á þessum svæðum en í dag finnst engin lagaheimild til þess að banna veiðar þarna,
segir Hans Petter Mortensholm hjá norsku vitamálastofnuninni (Kystverket).
Víða var geysimiklu af ónotuðum skotfærum kastað í hafið eftir seinni heimsstyrjöld. Talið er að um 150 þúsund tonnum af eiturefnavopnum hafi verið fleygt í sjóinn í Skagerrak sem er hafsvæðið milli Noregs og Danmerkur. Á botni Eystrasalts liggja að því að talið er um 50 þúsund tonn af eiturefnasprengjum og um 200 þúsund tonn af hefðbundum skotfærum og sprengjum frá báðum heimsstyrjöldunum.