Hin mikla svifriksmengun í Reykjavík er sögð vera ráðgáta, þetta má sjá í viðtali við bandarískan sérfræðing, Larry G. Anderson. Það er sagt að þetta sé ekki skíturinn sem spænist upp undan bíldekkjum okkar – er það þá eldfjallaaska? En í þessum skilningi er borgin víst mengaðri en stórborgir víða erlendis, þrátt fyrir rokið sem átti að feykja burt allri menguninni.
Loftið er fremur þurrt á Íslandi, þrátt fyrir úrkomuna. Og reyndar finnst manni eins og úrkoma sé minni núorðið en áður var. En varla er það skýringin. Mér er tjáð af tæknimönnum að tengi ýmiss konar og tækjabúnaður tærist fyrr í Reykjavík en víðast hvar, meira en til dæmis á Akureyri.
Og maður furðar sig á því hvað ryk sest fljótt inn í hús. Það er eins og þurfi sífellt að vera að þurrka af. Rykið sest fljótt á alla fleti og gluggar verða skítugir. En þetta er fíngerður salli sem maður trúir varla öðru en sé fjarska óhollur, fyrir utan hvað hann er hvimleiður.