Það er helst í fréttum að Íslendingar unnu Króata 1-0 í fótbolta. Með stæl. Best að gera þetta óvænt í lokin.
Svo ákvað lögreglan að það þyrfti varðstöðu með byssur í Colour Run – eða Color Run eins og sumir skrifa. Líka á Hátíð hafsins – sem eitt sinn hét Sjómannadagurinn. Málið vandast kannski ef þarf að fara að hafa byssur á öllum útisamkomum sumarsins sem eru legíó.
Ísland er samt friðsælasta land í heimi samkvæmt öllum alþjóðlegum stöðlum. Toppar þann lista á hverju einasta ári.
Tíðindaleysið er svo mikið – sem betur fer – að það var í sjónvarpsfréttum í kvöld að sést hefði rotta í Vesturbænum.
Um þessa rottu spunnust talsverðar umræður á netinu í gær. Hún kom upp Framnesveginn, fór upp á Holtsgötu, komst þar í kast við ketti sem lögðu ekki alveg í hana, en lét lífið skömmu síðar.
Í fréttunum heyrði maður ekki betur en að rotta þessi væri orðin að grundvelli þess að rætt er um faraldur.
Þessi mynd af rottunni frægu birtist í gær á vefsvæðinu Vesturbærinn.