Skoðanakönnun sem Viðskiptablaðið birtir um fylgi flokkanna í borgarstjórn í Reykjavík er nokkuð áhugaverð. Meirihluti Samfylkingar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata virðist býsna öruggur. Líklegast þykir manni að þessir flokkar myndu vinna áfram saman á næsta kjörtímabili ef þeir fá fylgi til. Samstarfið hefur gengið nokkuð snurðulaust fyrir sig.
En innan hópsins eru breytingar. Samfylkingin tapar miklu frá síðustu kosningum en heldur þó 22,3 prósentum. Þetta er væntanlega persónufylgi Dags B. Eggertssonar, því Samfylkingin missti alla þingmenn sína í Reykjavík í þingkosningunum í október. Björt framtíð tapar líka miklu fylgi – það vekur upp spurningar hvort hægt verði að koma á einhvers konar framboði BF og Viðreisnar í borginni.
Píratar bæta við sig næstum tíu prósentustigum frá kosningunum og Vinstri græn fara úr 8.3 prósentum í 20.3 prósent. Flokkurinn er ívið fylgisminni en Samfylkingin, en þetta vekur samt upp spurningar um hvort Vinstri græn gætu stefnt á að ná borgarstjórasætinu. Það er ekki fjarlægt. Hins vegar eru framboðsmálin hjá VG enn býsna óljós – það vantar sterk nöfn á lista, en mikið gæti verið í húfi – semsagt sjálft borgarstjóraembættið.
Fylgi Sjálfstæðisflokksins er á sama róli og áður, í kringum 25 prósent. Sjálfstæðismenn hafa verið í miklum ham vegna borgarmálanna undanfarið, þeir hafa beint sjónum sínum að skipulagi, umferð og húsnæðismálum, en það virðist ekki hafa skilað þeim miklu. Nú er talað um að skipta enn einu sinni um oddvita hjá Sjálfstæðisflokknum, að Halldóri Halldórssyni verði ekki treyst fyrir því. Sá sem er helst nefndur í því sambandi er Borgar Þór Einarsson, aðstoðarmaður Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra. Áhrif Guðlaugs innan Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík eru mjög sterk – og honum er áfram um að fá Borgar í framboð. Foringjaskipti á síðustu stundu hafa hins vegar ekki gefist vel í flokknum.
Það eru svo ákveðnar breytur í könnuninni sem eru eftirtektarverðar, eins og til dæmis að fylgi VG er miklu meira meðal kvenna en karla og að fylgishópur Sjálfstæðisflokksins er kominn nokkuð á aldur, hann nýtur minna fylgis meðal þeirra sem yngri eru. Þannig er spurning hvað það borgar sig fyrir flokkinn að keyra hart á viðhorf í skipulagsmálum sem mega teljast gamaldags.