Það eru í raun ótrúleg tíðindi að samkynhneigður sonur innflytjanda skuli verða forsætisráðherra á Írlandi. En Leo Varadkar sigraði í leiðtogakjöri í Fine Gail stjórnmálaflokknum og tekur á næstunni við sem forsætisráðherra.
Þetta er til marks um stórkostlegar breytingar sem hafa orðið á írsku samfélagi. Ég ferðaðist mikið um Írland þegar ég var ungur maður. Þá var þetta eitthvert afturhaldssamasta þjóðfélag í Evrópu, kirkjan var í raun æðri ríkisvaldinu og beitti sér af hörku. Írar voru innhverfir, fjarska þjóðernissinnaðir og sannfærðir um sérstöðu sína í heiminum – það var heldur vond blanda.
Þegar ég bjó svo í París kynntist ég Írum sem voru eiginlega landflótta undan afturhaldinu. Þarna voru konur sem höfðu átt börn í lausum leik og samkynhneigt fólk sem þreifst ekki á Írlandi. Sérstaklega er mér minnistæður Johnny sem kom frá Dingle á vesturströnd Írlands. Hann var hommi. Um aldamótin 2000 treysti hann sér loks til að fara aftur heim.
Kirkjan á Írlandi hefur misst tökin, ekki síst vegna skelfilegra hneykslismála sem hafa skekið hana. Írar hafa orðið ríkir á alþjóðaviðskiptum og í raun ætti ekki að vera svo mikið því til fyrirstöðu lengur að Norður-Írland sameinist Írska lýðveldinu nema þá gamall þvergirðingur. Efnahagslega væri Norður-Írum líklega betur borgið með frændum sínum sunnan landamæranna en Englendingum.