Þessa flösku (og eldspýtustokkinn) rakst ég á hjá vinum mínum á Síldarminjasafninu á Siglufirði. Flaskan er nokkuð komin til ára sinna, en ég man eftir þessum drykk þótt ég hafi aldrei bragðað hann. Kokkteill var einhvers konar blanda úr gini og vermóð eftir því sem ég kemst næst, en á þessum árum voru líka til drykkir eins og Bolla og Nökkvakokkteill.
Ekki veit ég hvað var í síðarnefndu drykkjunum, stundum var sagt að svona drykkir hefðu verið blandaðir úr ýmsum víntegundum sem voru gerðar upptækar í smygli. Þetta voru engin eðalvín. Í blaðagrein frá 1979 segir að Áfengisverslunin hafi framleitt eftirtalda drykki: Brennivín, Ákavíti, Hvannarótarbrennivín, Bitterbrennivín, Gamalt brennivín, Gamalt ákavíti, Kláravín, Tindavodka, Ginn (Gin), Genever (blár og grænn), Brómberjabrandí, Krækiberjalíkjör, Bollu, Kokkteil (sætur & þurr), Nökkvakokkteill og Messuvín.
Yfirleitt var þetta sett í flöskur eins og eru á myndinni, ekki með neinu skrauti eða fallegum litum, heldur voru flöskurnar líkt og hannaðar til að taka upp úr buxnastreng eða súpa á ofan í lúkar.