Þessi ljósmynd er tekin í kvöld í Stíflu í Fljótum. Þar rann Stífluá sem ákveðið var að virkja á árunum í kringum stríð, aðallega til að sjá síldariðnaðinum á Siglufirði fyrir rafmagn. Þar störfuðu þá stórar verksmiðjur og mikil uppgrip.
Á þeirra tíma mælikvarða var þetta nokkuð stór virkjun og afleiðing hennar var að stór hluti dalsins fór undir vatn. Í efni frá Héraðsskjalasafni Skagfirðinga segir að fjórar jarðir hafi eyðst alveg og sex í viðbót orðið óbyggilegar. Af þessu hlutust sárindi og enn er talað um að fagurri sveit hafi verið drekkt, eins og síðar stóð til að gera í Laxárdal.
Virkjunin sem þarna stendur og framleiðir enn rafmagn nefnist Skeiðfossvirkjun og náði rafmagn frá henni til Siglufjarðar 1945. Þess má geta að þarna í dalnum eru mikil snjóþyngsli og hefur þar mælst mesta snjódýpt á Íslandi, 279 sentímetrar 19. mars 1995.
Rithöfundurinn Guðrún frá Lundi fæddist að Lundi í Stíflu, ólst þar upp til ellefu ára aldurs og kenndi sig við bæinn.
Stífluvatn sem er uppistöðulón.