Notendur Facebook síðunnar Keypt í Costco Ísl. – Myndir og verð nálgast nú 70 þúsund, eru 69.732 þegar þetta er skrifað. Fyrir fáum dögum, þegar ég skrifaði litla grein um ferð í Costco, voru þeir um 30 þúsund. Það var kona í Skagafirði sem stofnaði þessa síðu og óraði ekki fyrir að hún yrði stórveldi á örskömmum tíma, sjálf hefur hún ekki komið í búðina.
Það er eiginlega ekki um annað talað á Íslandi en Costco, önnur mál vekja varla áhuga eða umræðu, það hef ég upplifað í netskrifum síðustu dag. Og þar er þessi síða orðin miðpunktur. Þarna birtir fólk myndir af vöru sem það finnur í Costco, en líka úr öðrum búðum, af tómum verslunum og vöruverði þar sem yfirleitt stenst ekki samkeppnina nýju. Og það á líka við um gæðin.
Vísast er vefsíðan öflugasta átak í neytendamálum á Íslandi í háa herrans tíð. Það er ljóst að aðrar verslanir og heildsölur þurfa verulega að hugsa sinn gang gagnvart þessari vakningu. Costco áhrifin eru að reynast miklu meiri en nokkurn óraði fyrir og þau beinast meðal annars gegn einokun, fákeppni, samtryggingu og þeim sem hafa talið sig vera í áskrift í veskjum almennings.
En þetta vekur upp spurningar. Eins og til dæmis hvers vegna við höfum ekki fengið erlenda banka til Íslands?