Þá er Huddersfield komið upp í deild hinna bestu á Englandi. Ég hef lengi áformað að halda með þessu liði þegar það kæmi í Úrvalsdeildina. En lengi hefur það virst fjarska ólíklegt. Í gær sigraði Huddersfield í vítaspyrnukeppni i leik gegn Reading sem tryggði liðinu framgang.
Huddersfield er borg í Jórvíkurskíri. Hún er nokkuð stór, þar búa hátt í 170 þúsund íbúar, svo þeir ættu að geta stillt upp þokkalegu fótboltaliði. En frægð Huddersfield í fótbolta er nokkuð forn, liðið vann Englandsmeistaratitilinn þrjú ár í röð, frá 1924 til 1926. Þar til nú hefur liðið leikið í neðri deildum, allt niður í þá fjórðu, í fjörutíu og fimm ár.
Huddersfield komst óvænt inn í þjóðmálaumræðu á Íslandi fyrir nokkru síðan. Þetta var hrunárið 2008. Davíð Oddsson sat fyrir svörum um vaxtastefnu Seðlabankans. Blaðamaðurinn Höskuldur Kári Schram notaði tækifærið til að spyrja þáverandi seðlabankastjóra um vandræði Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, en þá var komið að því að Vilhjálmur Vilhjálmsson segiði af sér. En Davíð svaraði, nokkuð út í hött:
Hvernig líst þér á stöðu Huddersfield í ensku knattspyrnunni?