Verslunarfrelsi eða skortur á því er eins og rauður þráður gegnum Íslandssöguna. Gamli sáttmáli, enska öldin, Hamborgarkaupmenn, einokunarverslunin í ýmsum birtingarmyndum, innréttingarnar, barátta Jóns Sigurðssonar, kaupfélögin og síðan Sambandið, höftin, heildsölugróðinn, faktúrufalsanir, Kolkrabbinn, EES, Bónus, Costco – og svo má lengi telja.
Þetta er sagan endalausa. Og það er líka spurning um vörugæðin. Maðkaða mjölið er eitt sterkasta minni Íslandssögunnar. Og flest lærðum við söguna um einokunarkaupmanninn sem kallaði til Skúla Magnússonar: „Mældu rétt, strákur!“