Í dag eru 100 ár liðin frá fæðingu John F. Kennedy sem sat á forsetastól í Bandaríkjunum í tvö ár og tíu mánuði. Kennedy var myrtur af leyniskyttu í Dallas í Texas þann 22. nóvember 1963. Kennedy hefur lengi verið hjúpaður einhverskonar hetjuljóma í augum margra en var hann hetja eða var hann kannski bara skúrkur?
Það eru yfirleitt ekki mörg augnablikin í lífshlaupi fólks sem það man nákvæmlega hvar það var þegar stórtíðindi eiga sér stað. Flestir muna eflaust eftir hvar þeir voru þegar þeir heyrðu af hryðjuverkaárásunum á Bandaríkin í september 2001. Það sama á væntanlega við þá kynslóð sem var uppi á sjöunda áratugnum og heyrði af morðinu á Kennedy.
Líklegast hafa fá morð verið jafn umtöluð í gegnum tíðina og morðið á Kennedy og það er enn uppspretta mýmargra samsæriskenninga því fólk hefur ekki getað sætt sig við að Lee Harvey Oswald hafi skipulagt morðið upp á eigin spýtur.
En hvernig stendur á því að forseti sem sat svona stutt á valdastól kemur yfirleitt fljótt upp í umræðunni þegar rætt er um mestu þjóðarleiðtoga heimsins í gegnum tíðina?
Kennedy er í hugum margra ímynd hugrekkis á þeim miklu umbrotatímum sem voru þegar hann var forseti. Hann vann nauman sigur á Richard Nixon í forsetakosningunum 1960 og tók við emætti 1961. Kennedy var vel að máli farinn og greindur. Hann var vel menntaður og hafði gegnt herþjónustu við góðan orðstýr og hafði meðal annars verið sæmdur heiðursmerkjum.
Vinsældir hans náðu nýjum hæðum 1962 þegar honum tókst að leysa Kúbu-deiluna með samtölum í stað þess að nota sprengjur en heimurinn rambaði á barmi kjarnorkustyrjaldar vegna deilunnar. Kennedy varð nokkurskonar táknmynd hins nýja og drífandi og skrifaði sig þar með inn í söguna sem bandarísk hetja.
Þegar hann var myrtur varð hann táknmynd þess sem hefði getað orðið. Á valdatíma hans upplifðu Bandaríkjamenn uppgangstíma sem ekki hafa sést síðan. Á þeim tíma trúði fólk í alvöru að hægt væri að útrýma fátækt. Geimferðakapphlaupið við Rússa varð einnig til að styrkja fólk í þeirri trú að allt væri hægt svo lengi sem maður hefði frelsið og hugmyndafræðina sín megin.
Í kjölfar morðsins fór leiðin að liggja niður á við í Bandaríkjunum. Kennedy lifði þó áfram í hugum fólks því það gat og getur enn í dag fundið eigin hugmyndafræði sess í honum. Mýtan í kringum hann varð líklegast stærri vegna þess að hann lést ungur að árum, áður en hann hafði náð að hrinda hugsjónum sínum í framkvæmd en þær voru margar. Þær hefðu kannski gert heiminn að betri heimi en hann er í dag en auðvitað er ómögulegt að segja til um það með fullri vissu. Hugsanlega hefðu Bandaríkin ekki dregist inn í Víetnamstríðið og efnahagsmálin hefðu farið á betri veg en þau fóru á verri veg eftir dauða Kennedy.
Kennedy og fjölskylda hans voru eitt vinsælasta umfjöllunarefni margra fjölmiðla og voru nánast eins og konungsfjölskylda hvað varðar umfjöllun um þau. Kennedy og eiginkona hans, Jacqueline Kennedy, voru mynduð ásamt börnum sínum við hin ýmsu tækifæri. Að margra mata voru þau snjöll við að nýta sér fjölmiðla til að draga upp ákveðna mynd af þeim og fjölskyldunni.
En ekki var allt eins og sýndist á yfirborðinu því bak við fögur orð og hugsjónir glímdi Kennedy við persónuleg vandamál. En það var ekki fyrr en á áttunda áratugnum sem þau fóru að koma upp á yfirborðið. Þá kom upp á yfirborðið að hann hafði haldið framhjá eiginkonu sinni og að hann átti í nánu sambandi við mafíuna. En þegar þetta kom fram í dagsljósið var ímynd hans orðið svo sterk í hugum fólks að þetta skaðaði hana ekki, varð frekar til að gera hann manneskjulegri í hugum fólks.
Meðfæddur sjúkdómur gerði að verkum að Kennedy varð að ganga við hækjur en það gerði hann aldrei á almannafæri og þess var vel gætt að ekki væru teknar myndir af honum með hækjurnar. Hann kunni þá list vel að halda góðu hliðum sínum að fólki en felar hinar síðu góðu.
Fólk sem starfaði með honum hefur látið hafa eftir sér að hann hafi verið eins og mýtan segir, sjarmerandi, hugsjónamaður og hafi haft mikil áhrif á þá sem voru í kringum hann.
Kennedy mun án efa áfram verða eitt af hinum stóru nöfnum þegar rætt er um stjórnmálamenn og mun væntanlega ekki falla í gleymskunnar dá á næstu áratugum.