Sky News-fréttastofan hefur birt myndir úr eftirlitsmyndavélum teknar síðastliðið föstudagskvöld sem munu sýna hvar hinn 22 ára gamli Salman Abedi gengur um í verslunarmiðstöð með það sem virðist vera nýkeyptur bakboki.
Þremur dögum síðar sprengdi hann sjálfan sig í loft upp í inngangsrými Manchester Arena-tónleikahallarinnar með sprengju sem falin var í þessum bakpoka.
Vítisvélin var fyllt með litlum skrúfum og málmbitum sem dreifðust um allt og tættu sundur hold þeirra sem urðu fyrir. Alls eru 22 látnir og 64 manns slösuð. Mörg þeirra liggja nú á gjörgæslu þar sem reynt er að bjarga lífum þeirra. Breskir fjölmiðlar hafa birt myndir af flestum fórnarlambanna sem týndu lífum.
Sjáið lista og myndir af hinum látnu á vef BBC.
Unnið er af kappi að rannsókn málsins. Meðal annars er leitað að hugsanlegum vitorðsmönnum Salmans Abedi og handtökur hafa átt sér stað. Talið er óhugsandi að hann hafi framkvæmt þessa aðgerð einn og upp á eigin spýtur og hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamskt ríki hafa lýst ábyrgð á tilræðinu.
Í morgun var upplýst að Abedi hefði verið í Dusseldorf í Þýskalandi fjórum sólarhringum fyrir tilræðið. Hann flaug síðan þaðan til Manchester. Þekkt er að margir öfga-íslamistar búa í Dusseldorf og nú er meðal annars rannsakað hvort Abedi hafi hitt einhverja þar. Hann gæti þó einungis hafa millilent þar á leið sinni frá Miðausturlöndum til Bretlands.
Bandaríska stórblaðið New York Times hefur birt ljósmyndir sem breskir rannsóknalögreglumenn tóku á vettvangi sprengjutilræðisins. Þær myndir hafa svo aftur verið sýndar í breskum fjölmiðlum svo sem á vef Daily Mail. Þar má meðal annars sjá ljósmyndir af leifum bakpokans sem sprengjan var í, handheldan kveikibúnað sem fannst í krepptum hnefa tilræðismannsins, hvellhettubúnað og rafhlöður sem gáfu sprengjunni straum svo hún sprakk.
Bresk lögregluyfirvöld deila upplýsingum í svona málum með bandarískum lögregluyfirvöldum. Augljóst er að einhverjir þar hafa leikið myndunum til New York Times. Áður hafði nafni tilræðismannsins verið lekið út í Bandaríkjunum áður en það var birt af breskum stjórnvöldum. Þessir lekar hafa valdið mikilli reiði breskra lögregluyfirvalda sem ætla ekki að láta Bandaríkjamenn hafa fleiri upplýsingar um gang mála.
BBC greinir frá því að vænta megi uppgjörs vegna þessa máls þegar Theresa May forsætisráðherra Breta hittir Donald Trump Bandaríkjaforseta í Brussel í dag.