Suður-Kóreskir hermenn skutu með vélbyssu yfir landamærin við Norður-Kóreu. Bloomberg-fréttaveitan hefur þetta eftir hermálayfirvöldum í Suður-Kóreu. Suður-Kóreskir fjölmiðlar segja að skotið hafi verið á norður-kóreskt flygildi, eða dróna.
Hermálayfirvöld í suðri segja að viðbúnaður í lofti hafi verið aukinn og hefur kalltæki verið notað til að koma þeim skilaboðum norður að notkun flygilda verði ekki liðin.
Mikil spenna er á Kóreuskaganum um þessar mundir vegna eldflaugatilrauna Norður-Kóreumanna.
Unnið er að því núna að komast að því hvort flygildið hafi farið yfir allt hlutlausa beltið á landamærunum og yfir landamæri Suður-Kóreu. Þetta er ekki í fyrsta sinn á síðustu árum sem skotið er yfir landamærin, árið 2014 var skipts á skotum yfir landamærin í kjölfar þess að aðgerðasinnar slepptu lausum hundruð loftbelgja yfir landamærin sunnanmegin.