Það hljómar eins og sturlun að Bandaríkin og Saudi-Arabía skuli gera með sér vopnasamning upp á 55 milljarða dollara. Saudi-Arabía er auðvitað ekkert annað en fasískt trúræði þar sem makráð yfirstétt hefur hreiðrað um sig í miklu ríkidæmi, réttindi kvenna eru fótum troðin, innfluttir verkamenn hafa engan rétt, fólk er pyntað og tekið af lífi – mannréttindi eru öll í skötulíki en Saudar eru í óða önn við að breiða út sína ömurlegu heimssýn um veröldina. Fátt er rót meiri ófriðar í heiminum en hinn skelfilegi wahabbismi.
En fyrir Kanana er þetta náttúrlega business as usual, snýst um olíu og vopn – og svo það að vígbúast gegn höfuðóvininum í Íran. En það verður trauðla séð að Íranir séu eitthvað verri en Saudar. Obama mátti þó eiga það að hann reyndi að stilla til friðar gagnvart Íran. En Trump fer í sína fyrstu opinberu heimsókn til Saudi-Arabíu. Það segir sína sögu um prinsíppleysi mannsins.
Það segir líka sitt að Rex Tillerson, olíukarlinn sem er utanríkisráðherra Trump, sagði á blaðamannafundi í Riyadh í gær að Íranir þyrftu að taka sig á í mannréttindamálum. Það er örugglega rétt, en við hlið Tillersons á fundinum stóð Jubeir sem er utanríkisráðherra Saudi-Arabíu. Tillerson svaraði ekki spurningu um mannréttindin þar.