Menn eru ekki á því að gefast upp með áfengisfrumvarpið. Fylgið við það fer reyndar stöðugt dvínandi. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun eru 70 prósent landsmanna á móti því að áfengi verði selt í matvöruverslunum. Það er býsna afdráttarlaust.
Frumvarpið fer varla í gegn á þessu þingi – meirihlutinn á þingi fyrir því er reyndar óviss. En þá er tekið upp á því að breyta frumvarpinu svo mikið að það er nánast óþekkjanlegt. Þetta er gert á milli fyrstu og annarrar umræðu í þinginu.
Það dylst varla neinum heldur að þetta er orðið allt annað mál en lagt var upp með og í raun eðlilegast að leggja fram nýtt frumvarp á öðru þingi, til umræðu bæði á Alþingi og úti í samfélaginu.