Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, deildi háleynilegum upplýsingum með rússneska utanríkisráðherranum og rússneska sendiherranum á fundi í Hvíta húsinu í síðustu viku. Washington Post skýrði frá þessu í gær. Þetta hefur vakið mikla athygli í Washington og víðar og má segja að uppnám sé í stjórnkerfinu og meðal þingmanna vegna málsins. Spurt hefur verið af hverju Trump hafi sagt rússneska utanríkisráðherranum frá þessu. Vissi hann ekki betur? Vildi hann það? Þetta eru ekki góð svör og líklega fást ekki góð svör við þessum spurningum á næstunni. Bent hefur verið á að þetta lýsi ástandinu í Hvíta húsinu þessa dagana vel. „Þetta tekur engan endi. Það er ringulreið allan tímann.“ Segir starfsmaður Hvíta hússins um ástandið þar á bæ.
Í kjölfar fréttar Washington Post um málið fékk CNN staðfest hjá tveimur embættismönnum að aðalatriðin í frétt Washington Post séu rétt: Forsetinn deildi háleynilegum upplýsingum með rússneska utanríkisráðherranum á fundi þeirra í síðustu viku. Forsetinn er ekki sagður hafa upplýst beint um hvaðan heimildir Bandaríkjamanna væru komnar en embættismenn hjá leyniþjónustustofnunum sögðu CNN að þar á bæ óttist menn að Rússar geti komist að því hvaðan heimildirnar komu og það sé vægast sagt mjög viðkvæmt.
Heimildarmönnum ber ekki alveg saman um hversu mikið Trump hafi sagt Rússunum. Þær upplýsingar sem hann er sagður hafa deilt með þeim falla undir sérstaka aðgangsheimild sem nær yfir allra leynilegustu upplýsingar sem leyniþjónustur búa yfir.
CNN segir að talsmenn Hvíta hússins hafi brugðist fljótt við fréttaflutningi Washington Post í gærkvöldi og sent frá sér margar yfirlýsingar áður en H.R. McMaster, þjóðaröryggisráðgjafi Trump, var látinn ræða við fréttamenn en McMaster sat umræddan fund Trump og Rússanna.
McMaster sagði að forsetinn hafi ekki skýrt frá neinum hernaðaraðgerðum sem ekki væri búið að skýra frá áður og hafi ekki deilt neinum leyniþjónustuupplýsingum eða rætt um starfsaðferðir leyniþjónustunnar.
Rex Tillerson, utanríkisráðherra, sagði í yfirlýsingu að Trump hefði rætt „málin vítt og breitt“ við Rússana. Þar á meðal hefði verið baráttan gegn hryðjuverkum. Þar hefði verið rætt um ákveðnar ógnir en ekki hefði verið rætt um heimildamenn, aðferðir eða hernaðaraðgerðir.
Í frétt Washington Post kemur fram að Trump hafi lýst því í smáatriðum fyrir Rússunum hvernig hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið hafi í hyggju að nota fartölvur til að koma sprengjum um borð í flugvélar. Embættismaður, sem tjáði sig við Washington Post, sagði að Trump hafi sagt Rússunum að hann fengi frábærar upplýsingar daglega áður en hann skýrði nákvæmlega frá ákveðnum upplýsingum.
Kom þingmönnum í opna skjöldu
Þegar þingmenn repúblikana og demókrata fréttu af málinu í gærkvöldi virtust þeir verða mjög hissa að sögn CNN. Þingmenn, sem sitja í leyniþjónustunefnd öldungadeildarinnar, sögðust ekki hafa haft vitneskju um málið.
Bob Corker, þingmaður repúblikanaflokksins frá Tennessee, sagði að ef þetta er rétt þá sé það mjög slæmt. Lindsey Graham, þingmaður repúblikana frá Suður-Karólínu, tók í sama streng. John McCain, þingmaður repúblikana frá Arizona, tók í sama streng en sagðist vilja fá meiri upplýsingar áður en hann tjái sig frekar um málið.
Mark Warner, þingmaður demókrata frá Virginíu, sagði á Twitter að ef frétt Washington Post reynist rétt sé það kjaftshögg fyrir leyniþjónustustofnanir. Það sé óafsakanlegt að setja heimildarmenn og starfsaðferðir í hættu og þá sérstaklega með því að skýra Rússum frá.