James Clapper, fyrrum yfirmaður bandarísku leyniþjónustustofnananna, segir að lýðræðislegar stofnanir í Bandaríkjunum sæti nú árásum, bæði innanfrá og utanfrá. Þetta sagði hann í samtali við CNN. Viðtalið við Clapper var tekið í kjölfar atburðarrásar síðustu viku en Donald Trump, forseti, rak þá James Comey, yfirmann alríkislögreglunnar FBI, úr embætti. Gagnrýnendur telja að Comey hafi verið rekinn vegna rannsóknar FBI á þætti Rússa í forsetakosningunum á síðasta ári og hugsanlegum tengslum Rússa og starfsmanna kosningabaráttu Trump. Trump hefur sjálfur orðið margsaga um ástæður brottrekstursins og hefur meðal annars sagt að Comey hafi staðið sig illa í embætti en nokkrum vikum áður hafði hann einmitt hrósað Comey í hástert fyrir vel unnin störf.
Hann tók sem dæmi að meint íhlutun Rússa í forsetakosningarnar á síðasta ári væri árás utanfrá.
„Ég tel einnig að ráðist sé á stofnanir okkar innanfrá.“
Sagði Clapper. Þá spurði fréttamaður:
„Af forsetanum?“
„Einmitt.“
Var svar Clapper.
Hann sagði að stofnendur Bandaríkjanna hefðu af mikilli snilld byggt þjóðfélagið upp þannig að hinir þrír þættir ríkisvaldsins væru aðskildir, þetta væri innbyggt í kerfið. Nú væri ráðist á þessa skipan mála.
Leiðtogar leyniþjónustunefndar fulltrúadeildarinnar tilkynntu í kjölfar brottrekstrar Comey að nefndin muni hafa stíft eftirlit með því að ekki verði komið í veg fyrir rannsóknina á meintum tengslum Rússa við starfsmenn forsetaframboðs Trump né að hún verði trufluð.
Clapper lagði áherslu á að hann gæti ekki sagt til um hvort Rússar og starfsfólk Trump hafi átt í samstarfi í aðdraganda kosninganna í nóvember. Þetta sagði hann einnig nýlega í yfirheyrslu hjá bandarískri þingnefnd. Þá sagðist hann ekki staðfest að svo hafi verið eða að svo hafi ekki verið.