Borgaryfirvöld í Þrándheimi í Noregi hafa sent bréf til foreldra allra grunnskólabarna í skólum borgarinnar vegna aukinnar tíðni sjálfsvíga og sjálfsvígstilrauna undanfarnar vikur meðal unglinga í Þrándheimi. Fjölmargir unglinga sem hafa glímt við sjálfsvígshugsanir og rætt hefur verið við greina frá því að þau hafi horft á framhaldssjónvarpsþættina „13 Reasons Why“ sem sýndir eru á Netflix-sjónvarpsstöðinni og njóta mikilla vinsælda. Þættirnir hófu göngu sína í mars.
Þessir þáttaröð segir frá 17 ára unglingsstúlku sem tekur eigið líf þar sem henni þykir hún sæta einelti. Áður en hún gerir það tilgreinir hún 13 ástæður fyrir ákvörðun sinni með því að tala inn á segulband í alls 13 skipti. Skólafélagar hlusta síðan á þessar upptökur og þannig er sagan að aðdraganda sjálfsvígsins sögð af stúlkunni sjálfri.
Þættirnir hafa valdið deilum þar sem margir telja að áhorf á þá geti hvatt unglinga og jafnvel börn til að fremja sjálfsmorð. Aðrir fullyrða að þessir þættir fjalli um mikilvæg málefni og ættu í reynd að vera skylduáhorf í skólum.
Í Þrándheimi hafa yfirvöld hins vegar miklar áhyggjur. Síðustu fjórar til fimm vikur hafa stöðugt fleiri unglingar í borginni reynt að taka eigið líf og sumum tekist það.
Við vitum að maí er mánuður þar sem sveiflan í sjálfsmorðstíðninni er oft stígandi upp á við vegna þess að þá eru próf og útskriftir með tilheyrandi álagi. En nú hefur tíðnin verið svo miklu hærri en vanalega þannig að við neyddumst til að bregðast við,
segir Hilde Vikan hjá Þrándheimsborg í samtali við norska dagblaðið Verdens Gang.
Mjög margir framhaldsskólanemendur horfa á þessa þáttaröð [13 Reasons Why] og þau eru upptekin af henni. Við vitum að börn allt niður í fjórða bekk fylgjast með henni. Þessi skilaboð eru því send til allra foreldra í skólum Þrándheims,
segir m. a. í bréfinu sem borgaryfirvöld í Þrándheimi hafa nú sent út.
Borgaryfirvöld Þrándheims hafa nú aukið allan viðbúnað meðal lækna, sálfræðinga, í skólakerfinu og víðar til að reyna að sporna gegn því að faraldur sjálfsmorða fari nú af stað meðal barna og unglinga í borginni.