Enska er vissulega lingua franca nútímans – tungumálið sem ólíkar þjóðir nota til að tala sín á milli þótt það sé ekki þeirra móðurmál. Eitt sinn var latínan svona tungumál, síðar franskan. Nú hefur enskan algera yfirburði. Það er jafnvel hugsanlegt að hún ryðji tungumálum eins og íslensku burt með tíð og tíma. Og þótt ekkert enskumælandi ríki verði eftir í Evrópusambandinu nema smáþjóðin Írland mun enskan væntanlega halda áfram að vera aðaltungumálið á þeim vettvangi.
En enskan á ekki alls staðar við. Eitt af því sem er þjáningarfyllst við að fylgjast með Evróvisjón er að heyra söngvara sem kunna litla ensku, geta lítt tjáð sig á því tungumáli, hafa litla tilfinningu fyrir því, skija það kannski varla, burðast við að flytja lögin sín á ensku.
Útkoman verður oft skelfileg flatneskja. Í góðu sönglagi fylgjast nefnilega lag og texti að. Við Íslendingar höldum að við séum rosa góðir í ensku en oft verður notkun hennar í söng hjá okkur bara vandræðaleg. Og ekki er það betra hjá Austur-Evrópuþjóðum.
Portúgalinn Sobral og Ítalinn Gabbani eru eins og vitar í þessu myrkri – þeir syngja á sínum hljómfögru tungumálum – og eru taldir líklegir til að sigra í keppninni.
Annars er merkilegt að lesa að tíu lög í Evróvisjón séu samin af Svíum. Svíar eru býsna klárir á sviði hugvits og sköpunar – og þarna hafa þeir komið sér þægilega fyrir í iðnaðarpoppi. En verður að segja að allt er þetta mjög staðlað hjá þeim. Fyrir nokkrum árum kynntist ég reyndar einum helsta popplagahöfundi Svía og verð að segja að mér fannst ekki mikið til hugmynda hans um tónlist koma. En Svíþjóð er óneitanlega helsta stórveldið í Evróvisjón – hvað sem líður tuði um að Austur-Evrópa sé að taka keppnina yfir.