Í fjölmiðlum les maður að hugsanlega verði vegurinn milli Hellu og Hafnar lokaður í dag vegna óveðurs og hættu á sandstormi. Þetta minnir á enn eina ógnina sem okkar snauða og bjargarlausa þjóð glímdi við – mikið sandfjúk sem stafaði ýmst af uppblæstri, ösku sem kom upp með eldgosum og svo framburði fljótanna sem hlóðst upp í miklar sandauðnir.
Þetar ég sá þessa frétt á vef mbl.is rifjaðist upp fyrir mér frásögn þjóðskáldsins Matthíasar Jochumssonar af gríðarlegum sandstormi sem geisaði sunnanlands þegar hann var prestur í Odda á Rangárvöllum. Þetta var harðindavor 1882, veðrið stóð i í næstum hálfan mánuð „með þeim ódæmum af sandroki, að vart sást í viku milli húsa hjer á Rangárvöllum, og þó háloptið væri oftast nær heiðskírt“.
Skaðinn af veðrinu sem Matthías kallar „fellishret“ var gríðarlegur, matur varð óætur vegna sandsins, hey skemmdust, skepnur drápust og býli fóru í eyði. Matthías lýsir líðan fólksins meðan veðrið stóð yfir með þessum hætti.
Sandfokið sótti og inn í húsin, blandaði allan mat og drykk og jafnvel munnvatn manna. Víða gjörðist fólk hrætt og örvinglað, enda voru þá flestar bjargir bannaðar, þar sumstaðar var engin lífsnæring til fyrir fjenað og sumstaðar skorti allt: hey, mat og eldivið ; lagðist þá vesalt fólk fyrir, fól sig Guði og ljet svo fyrir berast uns kynjum þessum tók heldur að ljetta 2. og 3. maí. Óhætt má fullyrða, að ofviðri þetta hafi í þessum tveimur hreppum drepið hátt á annað þúsund fjár og að tiltölu eða meira af hrossum, og hefir þó fjöldi fallið síðan.
Grein skáldsins og klerksins, sem sjaldan skorti andagiftina, er mögnuð. Hún birtist í Ísafold 8. júní 1882. Það er kannski ekki furða að Landgræðsla ríkisins skyldi vera sett niður á Rangárvöllum. Hún hét reyndar Sandgræðsla ríkisins þegar hún var fyrst stofnuð 1907.