Hér er nokkuð skemmtileg mynd. Sagan er auðvitað margslungin og við skulum ekki gera lítið úr hvað gæti verið táknrænt í henni. Gyðingaþjóðin veður villu og svíma þar til hún finnur fyrirheitna landið – og á leiðinni verða uppákomur eins og smíði Gullkálfsins. Þar var að verki Aron – nú vinsælasta nafn á Íslandi – bróðir Mósesar. Og svo lentu Ísraelsmenn í átökum á leiðinni. En Móses sjálfur komst ekki alla leið.
En þetta er óneitanlega nokkuð vel í lagt, að villast í fjörutíu ár á leið sem er álíka löng og frá Reykjavík til Egilsstaða. (Odysseifur villtist í tíu ár um Eyjahafið sem er ekki mjög stórt en þó allmikið víðfemara.) Þegar þetta er sett upp á nútíma korti eins og það birtist á símaskjá er þetta pínu spaugilegt. En við nútímafólk eigum náttúrlega ekki alltaf að setja okkur á háan hest.
Ein uppástunga með myndinni hljómar svo:
Móses var karl og hefur örugglega ekki spurt til vegar.