fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Eru hótanir Bandaríkjanna gegn Norður-Kóreu orðin tóm?

Ritstjórn Eyjunnar
Þriðjudaginn 25. apríl 2017 07:58

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kim Jong Un, einræðisherra Norður Kóreu. Mynd/EPA

Donald Trump, Bandaríkjaforseti, hefur heldur bætt í orðanotkun sína undanfarið þegar málefni Norður-Kóreu ber á góma. Hann hefur að vanda verið stóryrtur og sagt að Bandaríkin muni ekki hika við að beita hervaldi gegn Norður-Kóreu til að stöðva kjarnorkuvopna- og eldflaugatilraunir landsins. Það er erfitt að ráða í hvað Trump muni gera en orð hans og gjörðir virðast ekki hafa mikil áhrif á Norður-Kóreumenn sem fara sínu fram að vanda.

Trump hvatti nýlega öryggisráð SÞ til að taka enn harðar á Norður-Kóreu og herða refsiaðgerðir gegn landinu enn frekar. Trump hefur sagt að öllum heiminum stafi ógn af Norður-Kóreu og kjarnorkuvopnabrölti landsins. Þetta verði að leysa og hefur hann hvatt Kínverja sérstaklega til að beita sér í málinu en hann telur að Kínverjar geti leyst málið ef þeir vilja.

Öryggisráð SÞ hefur margoft hert refsiaðgerðirnar gegn Norður-Kóreu en það hefur ekki skilað miklum árangri til þessa.

En Trump lætur ekki staðar numið við öryggisráðið því hann hefur einnig rætt málið við Angelu Merkel, kanslara Þýskalands, en þau ræddu málið símleiðis um helgina.

Eru hótanirnar orðin tóm?

Norður-Kórea býr ekki yfir nægilegum herstyrk til að geta látið sverfa til stáls við Bandaríkin og Bandaríkin hafa ekki áhuga á að standa í stríðsátökum við Norður-Kóreu. Þetta er mat Thomas Galasz Nielsen, hjá danska varnarmálaskólanum, en hann er sérfræðingur í málefnum Norður-Kóreu, Kína og hernaðartækni.

Í samtali við Jótlandspóstinn sagði hann að Norður-Kórea standi illa að vígi, sé veikburða ríki og eiginlega lítið ríki sem getur ekki sigrað í stríði.

Hann sagði að sú ákvörðun Trump að senda flugmóðurskipið USS Carl Vinson að ströndum Kóreu sé ekki skilaboð til Norður-Kóreu heldur sé þar um að ræða taktíska aðgerð sem beinist gegn Kína og sendi þeim skilaboð að nú eigi Kínverjar að stíga fram og taka á málum Norður-Kóreu.

Mynd/Getty images

Nielsen sagði að það sé í raun bara Kína sem getur gert eitthvað í málefnum Norður-Kóreu en það sé að loka á öll viðskipti við landið. Hin leiðin, sem sé fær í þessu, sé stríð og það vilji enginn. Hann sagði að Bandaríkin líti á Kína sem þann sem svindlar á viðskiptabanninum þar sem mikil og lífleg viðskipti eru á milli Kína og Norður-Kóreu og það sé eina ástæðan fyrir því að Norður-Kórea sé til. Bandaríkin séu að reyna að þvinga Kína til að stöðva þessi viðskipti en það myndi hafa mikil áhrif á Norður-Kóreu. Með því að senda flugmóðurskipið að ströndum Kóreu sé verið að senda Kínverjum sterk skilaboð.

Hann sagði að Kínverjar vilji ekki frekari deilur í heimshlutanum. Þeir standi nú þegar í deilum við Japan, Taívan og Suður-Kóreu og vilji halda Bandaríkjunum fjarri.

Nielsen sagði að þrátt fyrir stórar yfirlýsingar Norður-Kóreu þá hafi ráðamenn þar engan áhuga á stríði við Bandaríkin því her landsins hafi enga getu til að takast á við þann bandaríska. Her Norður-Kóreu sé ætlað að hafa taumhald á íbúum landsins og tryggja að ráðamenn geti setið áfram við völd. Nielsen sagði að ráðamenn í Norður-Kóreu séu hins vegar snillingar í pólitískum leikjum og séu vel meðvitaðir um stöðu sína á milli Kína og Bandaríkjanna. Þeir séu í miðjunni og ögri báðum ríkjunum til að ná sínu fram sem sé að halda völdum í Norður-Kóreu.

Kínverjar hafa heldur engan áhuga á að til átaka komi því þeir vita að þá hrynur Norður-Kórea til grunna og Bandaríkin og Suður-Kórea munu taka landið á sitt vald. Kínverjar standa þá frammi fyrir straumi flóttamanna frá Norður-Kóreu og verða þá skyndilega komnir með landamæri að svæði sem er á valdi Bandaríkjanna og bandamanna þeirra. Það vilja þeir ekki. Norður-Kórea hentar þeim vel sem einhverskonar stuðpúði.

Útiloka ekki hernað

Bandarískir embættismenn hafa ekki viljað útiloka að gripið verði til hernaðaraðgerða gegn Norður-Kóreu. Þá yrði um loftárásir að ræða. Að sögn CNN segja embættismenn að hugsanlega verði gripið til slíkra aðgera ef Norður-Kórea sprengir enn eina kjarnorkusprengjuna.

Nikki Haley, sendiherra Bandaríkjanna hjá SÞ, sagði þetta sama í Today Show á NBS í gær. Hún gagnrýndi Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, og sagði hann óstöðugan og ofsóknaróðan.

Tomahawk flugskeyti skotið á loft. Mynd/Getty

Embættismenn í Suður-Kóreu hafa sagt að hætta sé á að Norður-Kórea sprengi kjarnorkusprengju í dag en í dag er stofndegi hers landsins fagnað þar í landi.

Kjarnorkukafbáturinn USS Michigan er nú kominn til Suður-Kóreu en hann getur skotið stýriflaugum. Embættismenn segja að tilgangur ferðar USS Michigan til Suður-Kóreu sé að senda sterk skilaboð til stjórnvalda í Norður-Kóreu.

Donald Trump hefur boðað alla öldungardeildarþingmenn bandaríska þingsins til fundar við sig í Hvíta húsinu á morgun en þar verða málefni Norður-Kóreu rædd. Rex Tillerson, utanríkisráðherra, og James Mattis, varnarmálaráðherra, verða einnig á fundinum og fara yfir stöðu mála.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 5 um ESB/Evrópu: Það þarf sterka Evrópu til að tryggja öryggi og velferðar barnanna okkar

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 5 um ESB/Evrópu: Það þarf sterka Evrópu til að tryggja öryggi og velferðar barnanna okkar
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Mun taktísk kosning ráða úrslitum um forystusætið?

Orðið á götunni: Mun taktísk kosning ráða úrslitum um forystusætið?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur