Ég var í Vestmannaeyjum um helgina. Talaði þar á fundi í Safnahúsinu sem var haldinn á vegum félagsskapar sem nefnist Eyjahjartað. Þarna voru aðkomumenn sem hafa tengsl við Eyjar og rifjuðu upp minningar, flestir unnum við þar á einhverjum tímapunkti í fiski. Það var fjölmenni og þetta var hinn besti fundur. Guðmundur Andri sagði frá tíma sínum í Ísfélaginu, Ómar Valdimarsson talaði um ættingja sína í Eyjum, Bubbi hefur frá mörgu að segja varðandi Eyjatengsl sín – þar varð sjálft gúanórokkið til – og ég talaði meðal annars um fólk sem ég kynntist þarna fyrir mörgum áratugum, sérstaklega fólkið sem bjó í Suðurgarði.
Allt er í heiminum hverfult. Ég sé að það er verið að rífa hús Ísfélagsins og Fiskiðjuna þar sem ég vann. Ég heyrði á nokkrum Eyjamönnum að þeir voru aðeins með í maganum yfir þessu, bæði húsin hafa verið mjög áberandi við höfnina og jafnvel nokkurs konar tákn í bæjarmyndinni.
En þeir sögðu mér líka að húsin væru meira og minna ónýt, sérstaklega efri hæðirnar, þau hefðu kannski ekki verið sérlega vel byggð og steypan sem var notuð í þau léleg og það myndi vera kostnaðarsamt og máski tilgangslítið að gera við þau.
Hér eru myndir af Ísfélaginu og Fiskiðjunni eins og húsin litu út í björtu og köldu veðri í dag.