Miðjumaðurinn Emmanuel Macron er nú með forystu þegar búið er að telja meira en 40 milljón atkvæði í fyrri umferð frönsku forsetakosninganna, alls eru 46,7 milljón Frakkar á kjörskrá. Marine Le Pen, frambjóðandi þjóðernissinna, var með forystu en er nú komin rúmu prósentustigi á eftir Macron nú þegar atkvæðin streyma inn úr stórborgum Frakklands, en hún sækir mest sitt fylgi í dreifðari byggðir.
Mælist Macron nú með 23,54% fylgi samkvæmt nýjustu tölum úr franska innanríkisráðuneytinu og Le Pen með 22,33%. François Fillon frambjóðandi íhaldsmanna mælist með 19,87% fylgi sem er lítil breyting frá fyrri mælingum. Mælist vinstrimaðurinn Jean-Luc Mélenchon svo með 19% og sósíalistinn Benoit Hamon mælist með 6%. Útkoma Hamons er mikill skellur fyrir sósíalista sem fengu rúmlega helming þingsæta í þingkosningunum 2012.
Þegar lagt er saman fylgi flokkanna yst á hægri og vinstri ásnum kemur í ljós að jaðarflokkar, ef svo má að orði komast, eru að fá rúmlega 40% fylgi sem telst mjög óvenjulegt.
Nú liggur fyrir að Macron mætir Le Pen í seinni umferð kosninganna sem fer fara fram eftir tvær vikur. Baráttan hingað til hefur verið hörð og fátt bendir til annars en baráttan harðni enn frekar. Ellefu voru í framboði í fyrri umferð kosninganna og hafa nú frambjóðendur sósíalista og íhaldsmanna stigið fram og hvatt sína stuðningsmenn til að kjósa Macron til að koma í veg fyrir að Le Pen verði Frakklandsforseti.