Það er ekki einungis IKEA á Íslandi og Bláa lónið sem hyggst byggja íbúðarhúsnæði fyrir starfsmenn sína, nú hefur Skinney Þinganes bæst í hópinn og hyggst útgerðarfélagið byggja allt að tólf íbúðir til að leigja til starfsmanna. Greint er frá því í Morgunblaðinu í dag að helmingur íbúðanna verði klár í haust og afgangurinn eftir áramót ef áætlanir ganga eftir.
Markmiðið er að tryggja starfsmönnum húsnæði en húsnæðismarkaðurinn á Höfn í Hornafirði hefur ekki farið varhluta af gríðarlegri fjölgun ferðamanna og eru dæmi um að hús í bænum hafi verið keypt til að þess að leigja út til ferðamanna. Einnig gengur erfiðlega að fá iðnaðarmenn til starfa þar sem næg verkefni er að hafa í tenglsum við uppbyggingu hótela og gististaða.
Dæmi um að starfsmenn þurfi að flytja strax og þeim sé sagt upp
Sett hafa verið spurningamerki við þessar aðgerðir fyrirtækjanna. Í Speglinum á Rás 1 fyrr í vikunni sagði Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins að þetta væri eðlilegt viðbragð hjá fyrirtækjum sem vantar starfsfólk og hafa áhyggjur af því að starfsfólkið sé í óviðunandi húsnæði.
Drífa segir að Starfsgreinasambandið hafi fengið nokkur mál inn á sitt borð þar sem fólk sé í vandræðum vegna samtvinnunar húsnæðis og atvinnu. Hefur hún ekki áhyggjur af því að farið verði framhjá húsleigalögum hjá stórum fyrirtækjum en það sé dæmi um það hjá smærri fyrirtækjum að starfsmönnum sé gert að flytja út samstundis þegar þeim sé sagt upp. Leggja þurfi mikla áherslu á að gerðir séu aðskildir samningar, ráðningarsamningur og leigusamningur.