fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Norðmenn óttast hryðjuverk á þjóðhátíðardaginn 17. maí – Herða öryggisráðstafanir

Ritstjórn Eyjunnar
Mánudaginn 10. apríl 2017 17:12

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Hátíðarhöld í Noregi á 17. maí. Enginn þorir að hugsa þá hugsun til enda ef vörubílaárás yrði gerð á skrúðgöngur eða mannfjölda á þeim degi. Ljóst er að í Ósló og jafnvel víðar verða mjög hertar öryggisráðstafanir í ár.

Stjórnvöld í Noregi telja að framundan sé aukin hætta á því að hryðjuverk verði framin í landinu. Þau hafa hækkað viðbúnaðarstig í samræmi við það. Meðal annars báru allir lögreglumenn í stærstu borgum landsins og á Gardemoen-flugvelli skotvopn við störf sín um helgina. Þeir tóku vopnin fram eftir hryðjuverkið í Stokkhólmi á föstudag.

Norska öryggislögreglan hækkaði um helgina hættumat sitt á hryðjuverkum í Noregi. Hættan er nú talin „líkleg,“ en áður var hún skilgreind sem „möguleg.“

Um helgina eyddi Óslóarlögreglan því sem talið var sprengja í Grönland-hverfinu í Ósló. Í tengslum við það mál var 17  ára gamall rússneskur hælisleitandi handtekinn. Hann er grunaður um að hafa haft sprengju undir höndum og misjafnt í hyggju sem meintur öfgamúslimi. Ungi maðurinn situr í yfirheyrslum en segist alsaklaus af öfgum og hryðjuverkaásökunum. Verjandi hans segir að um strákapör hafi verið að ræða og krefst þess að maðurinn verði látinn laus.

Nú síðdegis var pilturinn færður fyrir dómara þar sem hann var dæmdur í tveggja vikna einangrunargæsluvarðhald án rétts til að taka móti gestum eða skilaboðum. Þar kom fram að hann hefði haft í fórum sínum brúsa með kveikjaragasi. Utan á brúsann var búið að líma fjölmarga nagla sem hefðu væntanlega dreifst víða við sprengingu, og þannig valdið meiðslum eða jafnvel dauða.

 

Margir „varasamir“ hátíðadagar framundan

Í morgun fundaði yfirstjórn norsku lögreglunnar með lögreglustjórum í helstu borgum Noregs. Þar var ákveðið að löreglumenn mættu bera skotvopn áfram þar til annað er ákveðið. Það verður þó í valdi hvers lögregluumdæmis fyrir sig að ákveða um þetta þar sem lögreglustjórar eiga að meta hvort þeir telji þörf á slíku. Þannig segir norska ríkisútvarpið NRK frá því að lögreglumenn í Drammen suður af Ósló verði t. a. m. óvopnaðir en kollegar þeirra í Þrændalögum og í Þrándheimi beri áfram skotvopn.

Samhliða þessu hafa norsk stjórnvöld áhyggjur af því að nú fara í hönd páskar. Fólk í fríi fjölmennir þá oft á opinberum stöðum. Síðan er þjóðhátíðardagur Norðmanna 17. maí. Þá er mikið um dýrðir þar sem almenningur gengur í skrúðgöngum um stræti og torg um gervallan Noreg. Þar eiga börnin sérstakan sess.

Hryðjuverkamenn eru uppteknir af hinu táknræna. Mikil táknræn áhersla getur legið í því að ganga til aðgerða á hátíðadögum svo sem á þjóðhátíðardegi eða þegar mikið stendur til,

segir Cato Hemmingby sérfræðingur við Lögregluháskóla Noregs í samtali við NRK.

Borgaryfirvöld í Ósló funduð í dag með lögregluyfirvöldum. Þar var rætt hvernig hægt verði að auka öryggi í borginni svo draga megi úr hættu á hryðjuverkum á borð við þau sem hafa orðið síðustu mánuði í Nice, París, Brussel, Berlín, Lundúnum og nú síðast í Stokkhólmi. Í þeirri umræðu er ofarlega á blaði hvernig koma megi í veg fyrir árásir þar sem bílum er ekið á miklum hraða inn í mannfjölda sem á sér einskis ills von.

Raymond Johansen formaður borgarráðs Óslóar segir við Aftenposten að þess megi vænta að öryggisgæsla verði aukin í borginni fyrir 17. maí.

Í ár munu þessar aðgerðir verða með öðru sniði en almenningur hefur séð á síðustu árum,

segir Johansen án þess að upplýsa nánar hvernig þessu verði háttað. Þegar er byrjað að tala um hvernig loka megi fjölförnum götum fótgangandi vegfarenda, á borð við Karl Johan-stræti í miðborg Óslóar, og setja upp tálma þannig að ekki verði hægt að keyra niður fólk. Þetta er þó hægara sagt en gert því jafnframt verður að tryggja að lögregla, sjúkrabílar og slökkvilið komist um göturnar ef hættuástand skapast.

Við stefnum á að halda flott flott hátíðarhöld á 17. maí með barnaskrúðgöngum eins og venjan er. Síðan mun lögreglan gera þær ráðstafanir sem þykja nauðsynlegar til að við getum verið örugg á þjóðhátíðardaginn. Við berum fullt traust til þess að lögreglan geri það með góðum hætti,

segir Björnar Moxnes formaður 17. maí þjóðhátíðarnefndarinnar í Ósló við Aftenposten.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?