fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Norskir Framsóknarmenn í leiftursókn – Miðflokkurinn mælist þriðji stærsti flokkur Noregs

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 8. apríl 2017 14:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Norskir „Framsóknarmenn“ stefna í að margfalda fylgi síns flokks í Stórþingskosningum sem eiga að fara fram í september.

Norski Miðflokkurinn siglir í miklum meðbyr þessa dagana ef marka má skoðanakannanir í Noregi. Norðmenn ganga til Stórþingskosninga 11. september á þessu ári. Nú þegar aðeins sex mánuðir eru til kosninga má greina að spennan er að aukast í norskum stjórnmálum.

Miðflokkurinn telst systurflokkur Framsóknarflokksins á Íslandi. Hann hefur haft á sér yfirbragð flokks hinna dreifðu byggða og einkum sótt fylgi sitt til fólks í sveitum landsins. Við síðustu Stórþingskosningar 2013 fékk flokkurinn alls 5,5 prósent á landsvísu, einungis 10 af 169 sætum á þinginu og lenti í stjórnarandstöðu.

Árið eftir kom til uppgjörs í flokknum. Haldinn var auka landsfundur og skipt um formann. Ungur bóndi og þingmaður flokksins frá Austur-Noregi var kosinn formaður. Hann heitir Trygve Slagsvold Vedum. Aðeins 35 ára gamall varð hann yngsti formaður í sögu flokksins. Lítil merki sáust í fyrstu um að formannsskiptin hefðu áhrif á gengi flokksins, en um síðustu áramót fór eitthvað að gerast. Flokkurinn fór að færast hratt upp á við í skoðanakönnunum.

Trygve Slagsvold Vedum formaður Miðflokksins á landsfundi sem haldinn var fyrir tveimur vikum síðan. Ljósm. af vef Miðflokksins.

Nýjasta könnunin sem birtist í norska Dagbladet nú um mánaðarmótin sýnir Miðflokkinn með 13,4 prósenta fylgi. Ef það yrðu niðurstöður kosninga þá yrði Miðflokkurinn þriðji stærsti flokkur Noregs og fengi 25 þingmenn. Þetta þykja mikil tíðindi í Noregi. Miðflokkurinn stefnir í að verða sigurvegari kosninganna í haust.

Öðrum flokkum gengur ekki jafn vel.

Verkamannaflokkurinn sem er stærsti flokkur Noregs mælist aðeins með 30,9 prósent. Mælingar sýna að flokkurinn hefur átt í vök að verjast síðan um mitt ár 2015 þrátt fyrir að vera í stjórnarandstöðu. Fengi Verkamannaflokkurinn aðeins 30 prósent í kosningum yrði það túlkað sem mikill ósigur. Flokkurinn fékk reyndar ekki nema 30,8 prósent 2013. Formanninum Jónasi Gard Störe virðist ekki vera að takast að koma flokkinum í sókn.

Hægri flokkur Ernu Solberg forsætisráðherra mælist í könnun Dagbladet með 25,3 prósent. Það yrði 1,5 prósenta aukning frá 2013. Ernu virðist vera að takast að verja stöðu flokks síns.

Bygging norska Stórþingsins í miðborg Óslóar.

Hinn hægri flokkurinn í norskum stjórnmálum, Framfaraflokkurinn undir forystu Siv Jensen fjármálaráðherra, er í vandræðum. Hann mælist aðeins með 10,6 prósent. Árið 2013 fékk flokkurinn 16,3 prósent. Yrðu niðurstöður könnunar Dagbladet að veruleika þá myndi Framfaraflokkurinn missa sæti sitt sem þriðji stærsti flokkur Noregs til Miðflokksins.

Minni flokkar mælast svo með enn minna. Kristilegi þjóðarflokkurinn er með 5,3 prósent og Vinstri með 4,2 prósent. Athygli vekur að Sósíalíski vinstriflokkurinn (SV) sem er systurflokkur Vinstri grænna á Íslandi mælist einungis með 3,9 prósent en kemur kannski ekki á óvart í ljósi þess að flokkurinn fékk aðeins 4,1 prósent atkvæða í Stórþingskosninunum 2013.

 

Umdeildur flokkur sem sankar að sér fylgi

Skyndileg velgengni norska Miðflokksins hefur eðlilega vakið athygli. Flokkurinn hefur haldið fram þjóðernisstefnu og lagt áherslu á norsk gildi. Formaðurinn segist ætla að fella hægristjórn Ernu Solberg og býður hinum núverandi stjórnarandstöðuflokkunum upp í dans þar sem búin yrði til „rauðgræn ríkisstjórn.“

Trygve Slagsvold Vedum talar fyrir stefnu sem á að fá Norðmenn til að treysta á eigin land, gögn þess og gæði. Ekki spillir heldur fyrir að þeir séu einfaldlega stoltir af að vera Norðmenn. Ljósm. af vef Miðflokksins.

Miðflokkurinn segist berjast gegn hvers kyns miðstýringu og valdaafsali hinna dreifðu byggða til miðstýrrar stjórnsýslu ríkisvaldsins. Hann boðar byggðastefnu „með ljósi í hverjum bæ“ og fullveldi Noregs með fána á hverri flaggstöng, þjóðbúningum og öðru sem heyrir til sem flokksmenn kalla „heilbrigða þjóðernisstefnu.“ Miðflokkurinn er einnig gegn aðild Noregs að Evrópusambandinu.

Formaður flokksins hefur einnig lýst því yfir að Miðflokkurinn muni ekki setjast í ríkisstjórn í Noregi nema farið verið í að ganga frá nýjum samningi um aðild landins að samningnum um Evrópska efnhagssvæðið í ljósi breyttra aðstæðna eftir að Bretland gengur úr Evrópusambandinu.

Flokkurinn hefur einnig látið til sín taka í innflytjendamálum. Á síðasta landsfundi sínum sem haldinn var seinustu helgina í mars sl. samþykkti flokkurinn bann við því að múslimskar konur notuðu andlitshyljandi blæjur í skólum Noregs, þar með talið háskólum. Varaformaður flokksins lýsti því einnig yfir að honum líkaði ekki að múslimakonur bæru slæður.

Andstæðingar Miðflokksins saka hann um þjóðrembu og jafnvel um kynþáttahatur. Formaðurinn Trygve Slagsvold Vedum hefur verið uppnefndur sem „norska útgáfan af Donaldi Trump.“ Miðflokkurinn standi fyrir herferð þar sem flokkurinn færi sér í nyt óróleika og óvissu meðal fólks með því að mála skrattann á vegginn í öllum málum gefist færi á slíku.

Bylgja þjóðernisíhaldsstefnu fer nú um Evrópu, þó við verðum aðeins vör við lítils háttar öldur hér heima [í Noregi]. Flokkar sem eru uppteknir af þjóðerniskennd í ýmsum myndum eru í sókn. Ég lít svo á að Miðflokkurinn sé mesti þjóðernisíhaldsflokkur Noregs,

sagði Kristin Clemet fyrrverandi ráðherra Hægriflokksins fyrr í vetur í viðtali við norska netmiðilinn Nettavisen.

Það eru fleiri flokkar sem halda á lofti strangri stefnu í innflytjendamálum hvað varðar lönd utan evrópska efnahagssvæðisins [EES], en Miðflokkurinn vill líka segja upp EES-samningnum. Framfaraflokkurinn hefur fram til þessa ekki haft uppi neinar óskir um að segja upp EES-samningnum og slíta tengslin við regluverk sem færir okkur frjálsa för manneskja og vinnuafls.

Svona gagnrýnisraddir virðast enn sem komið er ekki gera annað en að færa Miðflokknum stöðugt meira fylgi og formaðurinn Trygve Slagsvold Vedum sjálfsagt farinn að máta sig í stólinn sem næsti forsætisráðherra Noregs.

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?