Það er enginn vafi um að Assad forseti er sá sem ber ábyrgð á mestu hroðaverkunum í Sýrlandi – herir hans hafa drepið miklu fleira fólk en allir stríðsaðilar til saman. Og hann hefur notið til þess aðstoðar Rússa. Samt er ýmislegt á huldu um hina hræðilegu efnavopnaárás í Idlib. Hún er vissulega glæpur gegn mannkyni, en upplýsingarnar um hana virðast ónógar.
En það er makalaust að fylgjast með sinnaskiptum Trumps Bandaríkjaforseta. Fyrir fáum dögum lýsti hann því yfir að það sé ekki lengur markmið Bandaríkjanna að koma Assad frá völdum. Assad hefur líka reynt að ganga í augun á Trump og sagði í viðtali um daginn að það væru góðar ástæður fyrir því að Bandaríkjaforseti bannaði flóttamenn frá Sýrlandi.
En í nótt gerði Bandaríkjaher stórfelldar árásir á stöðvar Sýrlandshers. Allt í einu er Trump orðið mjög umhugað um sýrlensk börn, hann talaði í ræðu um „falleg lítil börn“ sem voru myrt í eiturárásinni. Það getur vissulega verið réttlætanlegt að ráðast gegn Assad og glæpahyski hans. En það er hins vegar stefnuleysið sem vekur miklar áhyggjur, að allt þetta, stefnubreytingin snögga og árásirnar, sé byggt á duttlungum hins fáfróða og sjálfumglaða Bandaríkjaforseta.
Hræsnararnir í Pútínstjórninni rússnesku bregðast við með því að segja þetta sé árás á fullvalda ríki og brot á alþjóðalögum. Þeim ferst. En Obama réðst aldrei svona beint gegn stjórn Assads. Og nú rifjast upp ýmislegt sem Trump hefur sett á Twitter, eins og til dæmis þetta: