Sundurtætt lík hins tuttugu og tveggja ára gamla Akbarzhon Jalilov hefur fundist á vettvangi árásarinnar í St. Pétursborg í Rússlandi. Yfirvöld í Kreml hafa staðfest fundinn.
Talið er öruggt að Jalilov hafi sprengt sig í loft upp í lestinni klukkan 11:30 að íslenskum tíma í gær. Þá var klukkan 14:30 í St. Pétursborg og síðdegisumferðin að ná hámarki. Lestin var á fullri ferð milli tveggja lestarstöðva í borginni þegar sprenging varð í einum vagninum.
Ökumaður lestarinnar hefur í dag verið hylltur sem hetja því hann er talinn hafa brugðist rétt við. Í stað þess að stöðva lestina þegar sprengingin varð í neðanjarðargöngum milli stöðva hélt hann áfram og nam ekki staðar fyrr en hann kom á næstu lestarstöð. Þar með var hægt að rýma lestina af fólki, hjálparlið komst fljótt að slösuðu fólki sem margt hvert hlaut hroðalega áverka, og miklu auðveldara en ella varð að flytja fólk á sjúkrahús. Talið er að þetta hafi bjargað mörgum mannslífum.
Nú er staðfest að 14 hafi látist og um 50 slasast. Þrír hinna látnu voru erlendir ríkisborgarar frá Hvíta Rússlandi, Kasakhstan og Úsbekistan.
Þá er talið að Jalilov eða vitorðsmenn hans hafi komið fyrir annarri sprengju í slökkvitæki í Vostannaja-lestarstöðinni en lögreglunni tókst að aftengja sprengjuna. Sú sprengja var að talið er, fimm sinnum öflugri en sprengjan sem Jalikov notaði til að fremja sjálfsmorðssprengjuárásina.
Rússnesk yfirvöld hafa sent frá sér myndir úr öryggismyndavélum þar sem Akbarzhon Jalilov sést ganga í gegnum lestarstöð. Á einni myndinni sést hann með kreppta hnefa en líkur eru taldar á að í höndunum hafi hann haft búnað til þess að virkja sprengjuna. Talið er að árásin tengist íslömskum öfgamönnum.
Í frétt Daily Mail um málið kemur fram að Jalilov hafi starfað sem sushi-kokkur í St. Pétursborg og segir fyrrum vinnufélagi að hann hafi ekki verið trúrækinn þegar þeir störfuðu saman í borginni árið 2013. Jalilov fæddist 1995 í bænum Osh í Kyrgystan-lýðveldinu í Mið-Asíu en var rússenskur ríkisborgari og hafði búið í St. Pétursborg í ríflega sex ár. Bærinn Osh er í Fergana-dalnum á landamærum Úsbekistan og Tadjikistan. Eftir fall Sovétríkjanna hefur Fergana-dalur verið alræmdur sem nýliðunarsvæði fyrir hryðjuverkasveitir íslamista.
Talið er að nálega 90 prósent íbúa í Kyrgystan séu múslimar. Um 500 einstaklingar þaðan eru taldir hafa gengið til liðs við hryðjuverkasamtökin ISIS það sem af er.
Árásin kom ekki á óvart
Rússneska dagblaðið Kommersant sem telst nokkuð áreiðanlegur miðill skrifar í dag að rússneska lögreglan hafi búist við hryðjuverkaárás í St. Pétursborg. Búið hafi verið að handsama vígamann sem var nýkominn til Rússlands frá Sýrlandi þar sem hann barðist með sveitum ISIS. Þessi maður hafði í fórum sínum símanúmer manna sem rússneska lögreglan telur nú að hafi staðið á bak við hryðjuverkaárásina í gær.
Kommersant skrifar að rússneska lögreglan telji nú að minnst tveir menn hafi verið að verki við sprengjutilræðin. Maður sem kom slökkvitækissprengjunni fyrir á Vostannaja-stöðinni fylltist hræðslu og flúði af vettvangi þegar hann uppgötvaði að búið var að loka fyrir notkun á farsímanum sem hann ætlaði að nota til að tendra sprengjuna. Líklegt má telja að þar hafi rússneska lögreglan verið að verki. Hinn sprengjumaðurinn sem var Jalilov sprengdi sig hins vegar sjálfur í loft upp.
Talið er að þessi hryðjuverkaárás í St. Pétursborg í gær sé slæmar fréttir fyrir Vladimir Pútín Rússlandsforseta, og sérstaklega ef í ljós kemur að hún sé hefndarárás sem tengist hernaðaríhlutun Rússa í Sýrlandi. Þar hafa Rússar tekið þátt í loftárásum á hersveitir og vígi íslamista. Þessar árásir hafa þó líka bitnað á óbreyttum borgurum og vakið reiði og heift gegn Rússum.
Norska Dagbladet skrifar að vart sé að undra að böndin berist að Mið-Asíulýðveldum fyrrum Sovétríkjanna þar sem íslam hefur sterka stöðu. Milljónir verkamanna frá þessum svæðum búa nú í Rússlandi. Í St. Pétursborg munu þeir skipta hundruðum þúsunda. Þetta fólk fær oftast vinnu í lægst launuðu störfunum á vinnumarkaði. Það verður oft utanveltu í samfélaginu og móttækilegt fyrir áróðri og innrætingu öfga-íslamista.
Gamlar hatursglæður gætu blossað upp á ný
Einnig er rifjað upp að stríðin í Téténíu og öðrum múslimskum lýðveldum í Kákasus við lok síðustu aldar og um aldamótin hafi kveikt mikið hatur og komið af stað hryðjuverkabylgju í Rússlandi sem varði allt fram að Ólympíuleikunum í Sotsjí 2014. Ekkert land hefur orðið fyrir jafn miklum hryðjuverkum af hálfu íslamista og Rússland. Talið er að um 2.600 manns hafi látið lífið í slíkum árásum á þessu tímabili.
Útlit var fyrir að rússneskum yfirvöldum hefði tekist að vinna bug á slíkum hryðjuverkum. Nú gæti hins vegar verið að koma á daginn að afskiptin af stríðinu í Sýrlandi hafi kveikt nýja elda úr glóðum haturs meðal múslima í Mið-Asíu sem margir vonuðu að væru kulnaðar.
Hryðjuverkaárásin gegn St. Petersburg gæti þýtt að ný kynslóð hryðjuverkamanna sé nú orðin virk í Rússlandi. Þeirra barátta snýst um Sýrland og hún er slæmar fréttir fyrir Pútín,
skrifar Morten Strand fréttaritari Dagbladet í Rússlandi í pistli í dag. Strand er einn af fremstu sérfræðingum um Rússland í stétt norskra blaðamanna. Hann leiðir líkum að því að erfiðir tímar með aukinni hryðjuverkaógn í Rússlandi geti verið framundan og bendir á að á næsta ári eigi að halda heimsmeistarakeppnina í knattspyrnu þar í landi. Það er þekktara en frá þarf að segja í sögunni að slíkir viðburðir freisti þeirra sem hafa misjafnt í hyggju.