fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Sigurður A. Magnússon 1928-2017

Egill Helgason
Mánudaginn 3. apríl 2017 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gamall vinur minn, Sigurður A. Magnússon, er látinn. Hann var miklu eldri en ég, en við kynntumst ágætlega um tíma. Sigurður var með mömmu minni í KFUM & K. Ég heyrði miklar sögur af því hvað hann hefði verið aðsópsmikill og hrífandi á þeim árum. Leitandi – átti kannski ekki alltaf heima í félagskap trúsystystkina. Ekki fremur en mamma sem fór að lesa Íslandsklukkuna á unglingsaldri. Þau yfirgáfu bæði söfnuðinn.

Sigurður bjó um tíma í Ásvallagötunni þegar ég var strákur. Þá var hann einn helsti menningarblaðamaður Íslands, skrifaði í Moggann, en var farinn að feta sig til vinstri í pólitíkinni, undir áhrifum frá Vietnamstríðinu og valdaráni herforingjanna í Grikklandi. Svo frétti maður af honum í mótmælaaðgerðum niðri í bæ – fáir voru umdeildari á þessum árum en Sigurður. Hann fór að ritstýra Samvinnunni, málgagni SÍS, gerði það að róttæku menningarblaði. Líklega er það fyrsta menningartímarit sem ég las að staðaldri.

Ég var svo samtíða Sigurði á Helgarpóstinum. Ég var blaðamaður, hann var pistlahöfundur. Þá kynntist ég honum fyrst persónulega. Þetta á þeim tíma þegar hann hóf að rita sína stórbrotnu skáldævisögu, fyrsta bindið, Undir kalstjörnu, kom út 1980, Möskvar morgundagsins árið eftir. Ég heillaðist af þessum bókum, uppvextinum í sárri fátækt í Pólunum og Laugarnesi, föðurnum sem átti mörg börn og líka með systrum, og drengnum sem braust út úr þessu umhverfi – aðallega fyrir tilstilli trúar og bókmenntaáhuga.

Sigurður var mikill skapmaður. Eldsál, myndi maður kannski segja. Hann gat sagt hluti sem komu honum sjálfum illa. Það var auðvelt að æsa hann upp. Eitt sinn var hann mjög reiður út í mig, þá hafði ég skrifað stóra grein um hann í Helgarpóstinn, Nærmynd var það kallað. Ég vandaði mig mikið, talaði við gamla vini hans eins og Gest Þorgrímsson, Hjálmar Ólafsson, Sigurbjörn Einarsson, Þóri Kr. Þórðarson, Matthías Johannessen, Njörð P. Njarðvík, Vilborgu Dagbjartsdóttur og Guðrúnu Ólafsdóttur – mömmu mína. Mér fannst þetta góð grein. Ég var að reyna að skilja brotalöm sem kannski var alltaf í sál Sigurðar vegna uppeldisins.

En ritstjóri sem þá var fannst þetta ekki nógu safaríkt, eftir að ég var farinn heim hringdi hann í nokkrar konur sem Sigurður hafði átt í sambandi við og bætti athugasemdum frá þeim inn í greinina. Ritstjóranum fyrirgaf ég seint og Sigurði var misboðið. Það greri samt um heilt.

Í seinni tíð deildi ég Grikklandsáhuga með Sigurði. Ég er eins og dvergur í því miðað við Sigurð. Hann kom til Grikklands á afskaplega merkilegum tíma, stuttu eftir lok heimsstyrjaldarinnar. Hann kynntist fólki sem átti eftir að setja svip sinn á grískt þjóðlíf.  Tók þátt í baráttunni gegn herforingjunum. Talaði grísku reiprennandi og var eins og fiskur í vatni í hinum grískumælandi heimi. Ég sé hann samt skera sig úr með sitt mikla ljósa hár, dansandi á grísku torgi, syngjandi og drekkandi retsina – gleðimanninn.

Sigurður var handhafi bæði konungsorðu og forsetaorðu frá Grikklandi, hann fékk semsagt æðstu heiðursmerki gríska ríkisins bæði á tíma konungsveldis og lýðveldis. Einhvern tíma heyrði ég að þessar orður væru svo fínar að það yrði skotið úr fallbyssum á Akropolis þegar Sigurður dæi. Ég veit ekki hvað er hæft í þessu, en sagan er góð og mig langar eiginlega að trúa þessu. Mér finnst ég eiginlega heyra í byssunum á hæðinni.

 

Teikningin sem Ingólfur Margeirsson gerði við Nærmyndina sem ég skrifaði um Sigurð A. Magnússon í Helgarpóstinn 1983. Greinina er að finna á tímarit.is.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út