fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Er sundlaugamenningu Íslendinga ógnað?

Egill Helgason
Sunnudaginn 2. apríl 2017 20:18

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er rætt um sundlaugar á netinu. Einn segir að útlendingar séu að ræna frá okkur þessari heilsulind með því að fara ekki naktir í steypibað áður en þeir fara út í laugina. Það sé ekki lengur farandi í sund. Og vissulega er það svo að á sundstöðum í útlöndum er ekki sama krafa um hreinlæti og nekt. Það þekkja þeir líka sem hafa sótt heim erlend sundlaugahótel.

Annar segir að sturtur fyrir sund séu óþarfar, tilgagnslausar, vegna alls þess úrgangs sem mannskepnan lætur frá sér hvort sem er. Klórinn muni jafna þetta út. Læknir svarar með þessum orðum:

Að hópa fólki saman í vatnsbað er tilvalin leið til að dreifa smiti, sérstaklega gegnum svokallað orofoecal leið (þú mátt fletta upp hvað það þýðir). Til að draga úr slíkri hættu eru til einfaldar leiðir.
1. Draga úr lifitíma bakteríanna í vatninu og þess vegna er bætt út í vatnið klór.
2. Draga úr magni af bakteríum. Til þess er góður þvottur góð leið. Ég veit fyrir víst að handþvottur er gífurlega árangursrík leið til að draga úr smiti á sjúkrahúsum (margar rannsóknir þar að baki). Ég reikna með að svipað gildi um góðan alhliða þvott á öllum þeim svæðum sem eru sérmerkt á skýringarmyndum á baðstöðum sundlauganna.

Sundlaugamenning Íslendinga er reyndar mjög sérstök. Stefnan hefur lengi verið að enginn fái að útskrifast úr grunnskóla nema hann sé syndur. Þetta eru leifar frá fyrri tíð þegar var gert gríðarlegt átak til að kenna þjóðinni sund. Þá drukknuðu Íslendingar unnvörpum ef þeir komu nálægt vatni – þessi mikla sjósóknarþjóð.

Nú er kannski ekki jafn mikil þörf á þessu. Fæst stundum við sjó að ráði. Við sækjum sundlaugar, en líkurnar á að drukkna í þeim eru ekki miklar. En þetta þykir þjóðlegur og góður siður.

Í mínu minni er sundlaugamenningin íslenska frekar spartversk. Í henni var ákveðin harka, ögun, það var verið að temja líkamann. Í bernsku minni tóku Íslendingar upp til hópa þátt í 200 metra keppninni, þá kepptu Norðurlandaþjóðirnar um hverjir gætu synt 200 metra oftast. Íslendingar unnu alltaf með yfirburðum – miðað við höfðatölu – og voru feikilega stoltir af því. Á hverju heimili voru til viðurkenningar vegna 200 metra sunds. Eins og sjá má á þessari grein í Fálkanum gekk sjálfur forseti Íslands á undan með góðu fordæmi – eða synti, réttar sagt.

 

 

Kann þó að vera að þetta hafi breyst í seinni tíð, sundlaugarnar hafa mildara yfirbragð, það er meiri áhersla lögð á þægindi en áður. Vinur minn einn stalst til að taka þessa mynd í sturtuklefa karla í Sundhöllinni í Reykjavík. Almennt er bannað að taka myndir á slíkum stöðum, en arkítektúrinn er merkilegur. Sundhöllin, sem nú er 80 ára, er glæsilegt mannvirki. Einhvern tíma las ég að á tíma Gúttóslagsins 1932 hafi verið uppi hugmyndir um að nota húsið sem bráðabirgðafangelsi til að loka inni rauðliða – þá var Sundhöllin í byggingu. Af því varð þó sem betur fer ekki.

 

 

Eftir því sem ég man var nokkuð harðneskjulegt andrúmsloft í Sundhöllinni. Börn fengu mislitar teygjur og var hleypt í laugina í hollum, þar máttu þau vera í þrjú korter, en þá voru þau rekin upp aftur. Enginn komst upp með að þvo sér ekki um punginn. Ég fór reyndar meira í Vesturbæjarlaugina. Þar var ógleymanlegur baðvörður, Stjáni, sem allir drengir í Vesturbænum þekktu. Hann hafði mikla stöng sem hann notaði til að opna og loka fyrir krana, með nokkurs konar kló framan á.

En jafnoft var hún notuð til að dangla í átt að pungnum á manni – til að minna á hinn skyldubundna þvott. Enginn slapp undan honum. Í kvennaklefanum var baðvörður sem hélt uppi svipuðum aga meðal stúlknanna, ég þekki ekki nafn hennar, en man strangan svipinn. Börn sem gengu í gengum þetta þvo sér alltaf vel og vandlega áður en þau fara út í laug, líka þegar þau eru komin á gamalsaldur.

Erlendir ferðamenn segja sumir ekki farir sínar sléttar eftir ferðir í íslenskar sundlaugar. Þeir eru óvanir því að þurfa að klæða sig úr hverri spjör að öllum aðsjáandi. Okkur finnst þetta fáránleg spéhræðsla. Uss. Það hnussar í okkur. Maður heyrir sögur um að komi til átaka milli baðvarða og erlendra laugargesta. Og stundum er kvartað undan því að baðverðir sýni sinnuleysi gagnvart þessu ábyrgðarmikla verkefni.

En það mætti kannski hugsa sér að koma upp sturtum með einhvers konar hengi fyrir framan – svona fyrir þá sem eiga allra erfiðast með þetta?

Hér er svo sígilt grínatriði sem fjallar um sundlaugar og líkamsþvott.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt

Orðið á götunni: Óli Björn getur ekki horfst í augu við raunveruleikann – vinstristjórnarsamstarfið er dýrt og sorglegt
EyjanFastir pennar
Fyrir 2 dögum

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur

Björn Jón skrifar – Auðmaður fer með fleipur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?

Stórtíðindi í nýrri könnun: Viðreisn spólar fram úr Samfylkingu – Framsókn á útleið?
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út