Stjórnir Virðingar hf. og Kviku banka hf. hafa tekið sameiginlega ákvörðun um að slíta viðræðum um sameiningu félaganna. Í fréttatilkynningu vegna málsins segir að ákvörðunin um að enda samrunaferlið, sem hófst formlega 28. nóvember síðastliðinn, sé tekin að vel ígrunduðu máli og það sé sameiginlegt álit stjórna beggja félaganna að fullreynt sé.
„Starfsfólk Virðingar og Kviku hefur lagt hart að sér við undirbúning samrunans og hefur sú vinna gengið afar vel þrátt fyrir þessa niðurstöðu.“
Í nóvember í fyrra sendu fyrirtækin frá sér tilkynningu um að undirrituð hefði verið viljayfirlýsing um undirbúning samruna. Þar kom fram að í aðdraganda sameiningar yrði eigið fé Kviku lækkað um 600 milljónir króna og lækkunin greidd til hluthafa bankans. Hluthafar Kviku munu eftir samruna eiga 70% hlut í sameinuðu félagi og hluthafar Virðingar 30%.