fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Kanadaþorskurinn snýr aftur með stæl

Ritstjórn Eyjunnar
Sunnudaginn 26. mars 2017 12:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Endurkoma Kanadaþorsksins gæti hæglega þýtt aukna samkeppni á mörkuðum fyrir þorsk frá Íslandi. Stofninn við Kanada getur orðið gríðarstór og veiðar úr honum miklu mun meiri en úr stofninum við Ísland.

Stofn hins svokallaða Norðurþorsks sem er þorskstofninn undan ströndum Nýfundnalands og Labrador í Kanada er nú í örum vexti. Þar með er einn stærsti þorskstofn í heimi mættur til leiks að nýju eftir að hafa hrunið um og upp úr 1990. Árið 1992 var sett veiðibann og kvótar hafa verið mjög takmarkaðir allt fram á þennan dag.

Áður en stofninn hrundi var hann talinn einn stærsti þorskstofn í heimi. Mestur varð ársaflinn rétt fyrir 1970, eða um 1,7 milljónir tonna. Síðustu árin áður en stofninn hrundi voru árlega veidd milli 500 og 700 þúsund tonn. Nú loks eftir aldarfjórðungs ördeyðu eru sjómenn og fiskifræðingar sammála um að þessi þorskstofn er allur að hjarna við og reyndar í örum vexti.

Í kjölfar þess að þorskurinn hvarf blómstruðu rækjuveiðar undan ströndum Labrador og Nýfundnalands. Sú aflaaukning var skýrð á þann veg að þorskurinn væri horfinn. Hann lifði að stórum hluta á rækju þegar stofninn var stór. Við hrun þorsksins minnkaði hins vegar afránið á rækjunni, stofn hennar stækkaði og það kom fram í aflabrögðum á rækjuveiðum.

Nú hefur hins víða vegar dregið mjög úr rækjuafla, jafnvel svo að kreppa ríkir í kanadíska rækjuiðnaðinum. Fiskifræðingar telja að rækjustofnar hafi minnkað mjög. Þar af leiðandi hafa þeir ráðlagt minni veiði sem aftur þýðir að stjórnvöld hafa skorið kvóta niður við trog. Minnkandi rækjustofnar er talin ein staðfesting þess að þorskurinn sé nú óðum að braggast. Hann éti upp rækjuna. Það veldur hins vegar angist víða í sjávarbyggðum Labrador og Nýfundnalands að rækjan hverfi áður en þorskveiðarnar verði auknar svo einhverju muni. Fólk spyr sig að því af hverju það eigi að lifa eftir að rækjan er horfin á meðan beðið sé eftir því að fiskifræðingar og stjórnvöld gefi grænt ljós á þorskinn?

Enn í dag er deilt um það hvort ofveiði, kólnandi sjó eða einhverju öðru hafi verið því um að kenna að þorskstofninn hrundi. Þær deilur hverfa nú í skuggann af því að flestir virðast sammála um að þorskurinn sé allur að braggast og það hratt. Nú er talið að þorskstofninn hafi stækkað um 30 prósent árlega síðustu tíu árin. Fiskifræðingar töldu að stofninn væri um 300 þúsund tonn á síðasta ári. Þeir vilja sjá að hann nái einni milljón tonna. Það gæti gerst fyrr en margir hyggja.

Haldi stofn Norðurþorsksins áfram að stækka jafn hratt þá gæti svo farið að við sæum öflugar veiðar eiga sér stað innan fárra ára,

segir kanadíski fiskifræðingurinn George Rose við kandadíska fjölmiðilinn National Post. George Rose hefur um margra ára skeið verið einn helsti þorskfræðingur Kanadamanna og upplifði sjálfur þegar þorskstofninn hrundi um 1990. Brenndur af þeirri skelfilegu reynslu slær Rose því varnagla um endurkomu þorsksins:

Það er enginn trygging fyrir því að svo verði.

Áfallið þegar þorskurinn hvarf frá hinum geysi víðfeðmu og auðugu fiskimiðum austur af Kanada var á sínum tíma mjög þungt fyrir sjávarútveg þar. Ekki síst á Nýfundnalandi og Labrador. Eftir hartnær 30 ára bið virðist þorskurinn nú hins vegar í þann vera að færast svo í aukana að hann verður raunhæfur vonarpeningur fyrir mannlífið á þessum slóðum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?