fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Múslimsk kona fórnarlamb hatursáróðurs eftir árásina við breska þinghúsið í Lundúnum

Ritstjórn Eyjunnar
Laugardaginn 25. mars 2017 17:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Myndin af vettvangi hryðjuverksins á Westminster-brú sýnir hvar konan íklædd hijab-höfuðslæðu haldandi á farsíma gengur framhjá konu sem liggur slösuð á brúnni. Meðal múslimahatara hefur ljósmyndin verið túlkuð á versta veg og henni dreift á samfélagsmiðlum í áróðursskyni.

Ljósmynd af múslimskri konu sem heldur á farsíma og gengur fram hjá slasaðri kynsystur sinni sem liggur og nýtur aðhlynningar vegfarenda á Westminster-brúnni í Lundúnum hefur síðustu daga verið misnotuð af múslimahöturum víða um heim.

Ljósmyndin var tekin síðdegis á miðvikudag rétt eftir að íslamskur hryðjuverkamaður hafði ekið bifreið á miklum hraða á gangandi vegfarendur á brúnni. Síðan hljóp maðurinn út úr bílnum og stakk lögregluþjón til bana fyrir utan þinghús Breta í Westminster áður en hann var felldur af öðrum lögreglumönnum. Fjórir létust í árásinni og um 30 manns voru flutt á sjúkrahús. Nokkur þeirra eru lífshættulega slösuð.

Fullyrt hefur verið í færslum á netinu og með tístum á Twitter að myndin sýni hvernig múslimar séu gersneyddir umhyggju og samúð með fólki sem ekki sé sömu trúar og þau.

Nú hefur hið sanna hins vegar komið fram. Fjöldi fjölmiðla víða um heim fjalla um málið.

Blaðaljósmyndarinn Jerry Lorriman var staddur fyrir tilviljun undir brúnni þegar árásin var gerð þar sem hann var að taka ljósmyndir af þinghúsinu. Þegar honum varð ljóst að eitthvað slæmt hefði gerst uppi á brúnni hóf hann þegar að taka myndir á vettvangi. Meðal annars myndaði hann konu sem lá slösuð á brúnni. Lorriman gat ekki ímyndað sér hvernig nokkrar af ljósmyndum hans yrðu gripnar á lofti og misnotaðar í áróðursskyni nánast um leið og þær birtust í netmiðlum.

Ég tók ekki einu sinni eftir þessari konu sem gekk framhjá á myndinni fyrr en mér var bent á hana. Þetta átti að vera ljósmynd af manntjóninu, það var alger tilviljun að hún gekk fyrir myndavélina,

hefur Lorriman síðar sagt við fjölmiðla.  Hann segir að konunni hafi greinilega verið mjög brugðið yfir sem hafi nýverið gerst og vafalítið verið að yfirgefa brúna samkvæmt tilmælum lögreglu.

Það voru margir sem hjálpuðu til og það voru engin merki um ofsahræðslu.

Ljósmyndin vakti þegar athygli breskra fjölmiðla sem lýstu eftir því hver konan væri. Hún hefur ekki komið fram undir nafni en sent frá sér yfirlýsingu í gegnum félagasamtökin Tell MAMA en þau fylgjast með árásum á múslima.

Hugsanir mínar á þessu augnabliki voru markaðar sorg, ótta og áhyggjum. Þessar myndir sýna ekki að ég var nýbúin að ræða við önnur vitni til að reyna að skilja það sem hafði gerst og athuga hvort ég gæti eitthvað hjálpað til, jafnvel þó nóg af fólki væri þarna statt til hjálpa fórnarlömbunum. Síðan ákvað ég að hringja í fjölskyldu mína og segja þeim frá að ég væri heil á húfi og á leiðinni heim úr vinnunni. Á sama tíma aðstoðaði ég konu á leiðinni við að finna Waterloo-brautarstöðina. Hugsanir mínar eru hjá öllum fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra.

Konan segir að henni sé mjög brugðið yfir því hvernig fólk hafi skrifað um hana á samfélagsmiðlum eftir að það sá ljósmyndir Lorriman og dró sínar ályktanir, ekki út frá því sem myndirnar sýndu, heldur út frá eigin fordómum.

Mér er brugðið yfir því hvernig ljósmynd af mér er deilt á samfélagsmiðlum. Við þau sem hafa túlkað og skrifað ummæli varðandi það hvaða hugsanir fóru um huga minn í þessum hræðilegu aðstæðum vil ég segja að ég er ekki einungis niðurbrotin yfir því að hafa orðið vitni að þessari hræðilegu árás. Ég hef einnig orðið að glíma við áfallið yfir því að sjá myndir af mér á samfélagsmiðlum deilt af fólki sem er ófært um að líta framhjá klæðnaði mínum, og dregur ályktanir sem byggja á hatri og útlendingaótta,

skrifar konan í yfirlýsingu sinni. Hún þakkar einnig Jerry Lorriman ljósmyndara fyrir að hann hafi komið henni til varnar í fjölmiðlum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Í gær

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?