Hér segir frá því að íbúum Miðborgarinnar fækki mikið. Við förum að verða eins og geirfuglinn eða fólkið sem einu sinni bjó á Hornströndum.
En er ekki nauðsynlegt að halda Miðbænum í byggð? Þarf ekki að vera eitthvað fólk sem túristarnir geta fylgst með að starfi og leik. Fólk sem er ekki klætt í flís eins og það sé á leiðinni upp á jökul. Og til að segja þeim til vegar, aðstoða þá við innkaup í Bónus, hjálpa þeim við stöðumæla og segja þeim hvar er að finna hraðbanka.
Þetta eru nokkur af verkefnunum sem íbúarnir hérna í Miðbænum sinna. Við lendum líka mjög oft í því að vera á mynd hjá ferðamönnum, hvort sem við kærum okkur um það eða ekki.
Það er semsagt spurning hvort ekki þurfi að vernda íbúa Miðbæjarins. Slá um þá skjaldborg. Friða þá jafnvel.
Mætti jafnvel hugsa sér einhvers konar búsetustyrki – eða staðaruppbót?