Eldmessa Mikaels Torfasonar í Silfrinu í gær hefur vakið mikla athygli. Þar talaði hann um fátækt á Íslandi. Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins, tekur þetta upp í pistli sem hann ritaði í gær og segir:
Í Silfri RÚV í morgun gerðist það óvænta að fátækt fólk á Íslandi eignaðist allt í einumálsvara.
Málsvarar fátæks fólks hafa ekki sést opinberlega áratugum saman, eftir að verkalýðshreyfingin lenti að mestu leyti í höndunum á vinstri sinnuðu háskólamenntuðu fólki og hinar upprunalegu pólitísku hreyfingar, sem urðu til í tengslum við hana sömuleiðis.
En í morgun birtist athyglisvert þrístirni í fyrrnefndum þætti, sem var undir stjórn EgilsHelgasonar. Þetta voru þeir Gunnar Smári Egilsson og Mikael Torfason, sem báðir eiga starfsferil að baki í fjölmiðlum og Ragnar Önundarson, fyrrum bankastjóri, sem kynnti í þættinum nýyrðið „kverktakar“, sem, ef rétt er skilið, eins konar samheiti yfir þá, sem reka hin stóru leigufélög, sem hér hafa orðið til og hafa eins konar kverkataka á leigjendum sínum. Athyglisvert orð – kverktakar.
Það er augljóst að mikill tilfinningahiti er til staðar hjá þeim Gunnari Smára og Mikael, þegar kemur að þessum málum og Ragnar setti fram athyglisverða vörn fyrir gengisfellingar, sem hann lýsti sem velferðaraðgerð sem jafnaði áföll yfir þjóðfélagið allt í stað þess að í löndum, sem ekki beittu þeirri aðferð væru það þeir sem misstu vinnuna og yrðu atvinnulausir til lengri tíma, sem öxluðu afleiðingar af efnahagslegum áföllum.
Einhvern veginn sat áhorfandi og hlustandi eftir með þá tilfinningu, að málflutningur þeirra þremenninga í morgun yrði ekki það síðasta sem frá þeim mundi heyrast um þessi mál.
Um leið er það umhugsunarefni fyrir ráðandi öfl í verkalýðshreyfingunni og raunar einnig þingmenn vinstri flokkanna hvar þessir fyrrum málsvarar fátæka fólksins eru á vegi staddir.