Útgönguspá í hollensku þingkosningunum sem birt var strax eftir að kjörstaðir lokuðu klukkan 20 að íslenskum tíma benda til að Frjálslyndi flokkur Mark Rutte forsætisráðherra verði áfram sá stærsti í Hollandi. Spáin bendir til að flokkur hans Þjóðarflokkurinn fyrir frelsi og lýðræði (VVD) muni fá 21 prósent atkvæða og 31 þingsæti. Flokkur Rutte er þannig sigurvegari hollensku kosninganna. Það er þó varnarsigur því VVD virðist tapa 10 þingsætum frá síðustu kosningum 2012.
Frelsisflokki (PVV) Geerts Wilder sem er talinn yst til hægri á væng hollenskra stjórnmála tókst ekki að slá út flokk forsætisráðherra og verða stærri en hann. Frelsisflokkurinn fær samkvæmt þessu 13 prósent atkvæða og 19 þingsæti. Tveir aðrir flokkar virðast ná svipuðu fylgi og Frelsisflokkurinn.
Þannig er ljóst að Geert Wilders verður ekki sigurverari hollensku þingkosninganna eins og kannanir bentu jafnvel til að gæti orðið.
Greinilegt er að spennan kringum kosningarnar hefur leitt til stóraukinnar kjörsóknar. Nýjustu tölur sýna að 73 kosningabærra höfðu greitt atkvæði klukkustund og stundarfjórðungi áður en kjörstaðir lokuðu í kvöld klukkan 21 að hollenskum tíma (Kl. 20:00 á Íslandi). Við síðustu þingkosningnar í Hollandi 2012 var kjörsóknin á þeim tímapunkti 65 prósent. Fyrsta útgönguspá í kvöld sýndi síðan að kjörsóknin hefði orðið 81 prósent. Árið 2012 endaði hún í 74,6 prósentum.
Í höfuðborginni Haag var tilkynnt að kjörstaðir yrðu hafðir opnir aðeins fram yfir 21 svo að fólk sem þegar var mætt og stóð í biðröðum gæti greitt atkvæði. Sums staðar í borginni urðu kjörstaðir uppiskroppa með kjörseðla svo fólk varð að fara annað.
Hér fyrir neðan er færsla af Twitter-síðu Geerts Wilder með myndum af því þegar hann greiddi atkvæði í morgun:
Zojuist gestemd!!#StemPVV pic.twitter.com/9lckiKv05v
— Geert Wilders (@geertwilderspvv) March 15, 2017
Wilders hefur sjálfur lýst því yfir að hvernig sem kosningarnar fari þá sé hann sigurvegarinn því honum hafi tekist að stela senunni og koma af stað hreyfingu sem ekki verði stöðvuð.
Andinn er sloppinn úr lampanum og verður ekki settur í hann aftur.
Nú er svo að sjá hvort talning atkvæða sýni hvort útgönguspár standist.
Hér má fylgjast með beinni útsendingu frá kosningakvöldinu í Hollandi (á hollensku):