Jón Kalman Stefánsson er á lista tilnefndra rithöfunda vegna alþjóðlegu Booker-verðlaunanna, þetta er langi listinn, styttri listinn verður tilkynntur í apríl en verðlaunin sem nema 50 þúsund pundum verða veitt í júní. Þau skiptast jafnt milli höfundar og þýðanda.
Jón er tilnefndur fyrir skáldsöguna Fiskarnir hafa enga fætur, en af öðrum höfundum á listanum má nefna Ismail Kadare, albanska höfundinn sem fékk fyrstu alþjóðaverðlaun Man Booker 2005. Hann er tilnefndur fyrir bók sem gerist á tíma Ottómanaveldisins og fjallar um mann sem fær það hlutverk að flytja höfuð óvina soldánsins.
Annar frægur höfundur á listanum er Amos Oz frá Ísrael. Bæði Oz og Kadare eru orðaðir við Nóbelsverðlaunin á hverju ári.
Norski höfundurinn Roy Jacobsen er líka á listanum. Bókin hans heitir De usynlege, Hinir ósýnilegu. Roy er Íslendingum að góðu kunnur en hann hefur fjallað mikið um Íslendingasögurnar og var einn af þeim sem komu að heildarútgáfu Íslendingasagnanna á norsku sem var gefin út fyrir fáum árum.