„Aðalatriði er að það er mjög erfitt að finna einhvern sem hagnast á þessu,“ segir Frank Bakke-Jensen, ráðherra Evrópumála í norsku ríkisstjórninni í viðtali sem birtist á vef Bloomberg.
„Ég sé enga kosti við það að Bretland fari úr Evrópusambandinu,“ segir Bakke-Jensen.
Í greininni segir að Norðmenn hafi fengið vilyrði, meðal annars frá Michel Barnier, aðalsamningamanni ESB, um að tekið verði tillit til þarfa EFTA þjóðanna í samningaviðræðunum um útgöngu Breta. Við útgönguna munu Bretar líka ganga út úr EES samkomulaginu. Fyrir Noreg eru það erfið tíðindi, því 20 prósent af utanríkisverslun Norðmanna eru við Bretland.
Samkvæmt Bakke-Jensen eru Norðmenn nú að skoða gamla samninga við Bretland til að athuga hvort þar sé eitthvað sem geti ákvarðað framtíðarsamskipti þjóðanna. Þetta er býsna flókið verkefni. En um leið sé mikilvægt að halda í EES samninginn.
Bloomberg segir að talsverð andstaða sé við EES samninginn í Noregi. En bæði Hægri flokkurinn, sem Bakke-Jensen tilheyrir, og Verkamannaflokkurinn sem eru í stjórnarandstöðu styðja hann. Bakke-Jensen segir að þeir sem eru á móti EES hafi ekki sett fram neinn raunverulegan valkost.
„Þetta er það sama og með Boris Johnson, Wilders og allt þetta fólk. Það býður ekki upp á neitt raunverulegt val. Það er verkefni stjórnmálanna að greina það sem við höfum núna og spyrja hvað gæti komið í staðinn.“