Tayyip Erdogan forseti Tyrklands hefur lýst því yfir að Holland „skuli fá það borgað“ eftir að hollensk stjórnvöld neituðu tveimur tyrkneskum ráðherrum að sækja landið heim og halda ræður á stjórnmálafundum meðal Tyrkja í Hollandi.
Þessa fundi hyggjast tyrknesk stjórnvöld halda víða um Vestur Evrópu á næstunni. Þar eiga háttsettir tyrkneskir stjórnmálamenn á bandi Erdogans að afla stuðnings meðal Tyrkja sem hafa flutt úr landi, í þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á tyrknesku stjórnarskránni. Verði af þessum breytingum þá myndu þær færa Tyrkjaforseta auknar valdheimildir. Eftir nokkru er að slægjast á Vesturlöndum. Alls er talið að um 5.5 milljónir Tyrkja búi utan Tyrklands. Þar af eru 1.4 milljónir í Þýskalandi. Erdogan og fylgismenn hans vilja meðal annars halda kosningafundi í þar í landi, í Austurríki, Svíþjóð og Hollandi.
Meðal ráðamanna á Vesturlöndum er ákveðinn varhugur gegn því að Erdogan Tyrklandsforseti skuli með þessum hætti færa víglínur í tyrkneskum innanríkismálum inn í þeirra þjóðríki. Bent er á að tyrknesk stjórnvöld nútímans séu ekki barnanna best þegar kemur að mannréttindamálum. Miklar hreinsanir áttu sér stað þar í landi í kjölfar valdaránstilraunar andstæðinga Erdogans í fyrrasumar. Fjöldi fólks var fangelsað og um 100.000 ríkisstarfsmönnum sagt upp störfum. Ekki bætir svo úr skák að ástandið er víða viðkvæmt í Vestur Evrópu þar sem mikilvægar kosningar eru á næsta leyti. Það á sérstaklega við um Holland þar sem kosið verður til þings á miðvikudag og síðan Frakkland sem heldur forsetakosningar í vor.
Í Hollandi ríkir mikil spenna þar sem horfur eru á að hinn þjóðernissinnaði Frelsisflokkur undir forystu Geert Wilders vinni sigur. Flokkurinn hefur lengi legið undir ásökunum um að standa fyrir lýðskrumsstefnu þar sem gert sé út á andúð gegn múslimskum innflytjendum. Í síðustu viku var efnt til mótmæla fyrir utan tyrkneska sendiráðið í Haag í Hollandi. Þar var Wilders mættur með stuðningsmönnum og mótmælaspjöld þar sem Erdogan var kallaður „harðstjóri“ og tyrkneskum stjórnmálamönnum sagt að halda sig fjarri Hollandi.
Líklegt má telja að hollenska ríkisstjórnin óttist að stjórnmálafundir með tyrkneskum ráðherrum í Hollandi örfáum sólarhringum fyrir kjördag yrðu vatn á myllu Wilders og Frelsisflokksins. Wilders fengi þá meðal annars tækifæri til að fullyrða að hollenska ríkisstjórnin sé eins og mús undir fjalaketti gagnvart íslamistum Erdogans.
Um helgina var utanríkisráðherra Tyrklands bannað að koma fljúgandi til Hollands þar sem hann ætlaði að halda kosningafund. Þegar Betul Sayan Kaya fjölskyldumálaráðherra Tyrklands kom síðan akandi í sömu erindagjörðum frá Þýskalandi á laugardag var hún handsömuð af hollensku lögreglunni skammt frá ræðismannsskrifstofu Tyrklands í hafnarborginni Rotterdam og henni fylgt aftur til baka að þýsku landamærunum. Hún skrifaði um þetta á Twitter:
We're not allowed to enter into our Consulate which is part of our homeland.Is this really the heart of Europe ot the cradle of civilization
— Dr.Betül Sayan Kaya (@drbetulsayan) March 11, 2017
Talsmenn hollenskra stjórnvalda segjast hafa neyðst til að vísa tyrknesku ráðherrunum frá af öryggisástæðum.
Í kjölfarið urðu hörð og fjölmenn mótmæli fólks af tyrkneskum uppruna í Rotterdam þar sem lögregla beitti bæði vatnsbyssum og táragasi. Talið er að þúsund manns hafi tekið þátt.
Þeir eru taugaveiklaðir og huglausir. Þeir eru dreggjar nasismans, þeir eru fasistar,
sagði Erdogan við hóp stuðningsmanna sinna á fundi í Istanbul í gær og átti þar við Hollendinga. Hann hét því einnig að Hollandi skyldi launaður rauður belgur fyrir gráan. Erdogan virðist með þessu kynda undir þjóðerniskennd í sínu heimalandi þar sem hann stillir Tyrkjum upp sem fórnarlömbum illra afla á Vesturlöndum. Þar sé hann sjálfur vörnin sem viðhaldi reisn Tyrklands. Brottvísun ráðherra hans frá Hollandi gæti því nýst honum til að afla stuðnings við stjórnarskrárbreytingarnar.
Í Hollandi gæti málið einnig haft áhrif á úrslit þingkosninganna á miðvikudag.