Seðlabanki Íslands er búinn að semja við eigendur aflandskróna um kaup á 90 milljarðar króna á genginu 137,5 krónur á evru, en almennt gengi í dag á evru eru í kringum 114 krónur. Aflandskrónueigendum sem ekki hafa gert samkomulag við bankann verður boðið að gera sams konar samninga á næstu tveimur vikum. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Seðlabankanum.
Samkvæmt mati Seðlabankans námu aflandskrónueignir tæplega 200 milljarðar króna í lok febrúar, eftir að viðskiptin sem nú hafa verið tilkynnt hafa gengið í gegn mun fjárhæð aflandskrónueigna sem eftir standa nema um 100 milljörðum króna. Í dag voru gerðar breytingar á reglum Seðlabanka Íslands um gjaldeyrismál en þær munu ekki hafa áhrif á heimildir aflandskrónueigenda.
Með viðskiptunum hefur hættunni á að stór hluti aflandskróna streymdi á stuttum tíma út í gegnum gjaldeyrismarkaðinn við losun fjármagnshafta verið bægt frá. Verulega hefur því dregið úr kerfislegri áhættu sem fólst í miklum aflandskrónueignum og hefði að mati Seðlabankans getað valdið óstöðugleika í gengis- og peningamálum auk fjármálaóstöðugleika,
segir í tilkynningu Seðlabankans.