Lögreglan í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, biður nú um liðsauka vegna stóraukinnar tíðni alvarlegra glæpa í borginni. Í gærkvöldi fundust tveir menn látnir í bifreið utan við borgina. Báðir höfðu verið skotnir í höfuðið. Af þessu tilefni héldu lögregluyfirvöld borgarinnar blaðamannafund í dag þar sem gerð var grein fyrir stöðu mála. Hún er alvarleg. Segja má að vargöld ríki í borginni.
Þessa stundina erum við að rannsaka 47 morð og 57 morðtilraunir. Það sem af er þessu ári hafa sjö látið lífið og 14 eru særðir. Það er einnig verið að rannsaka fjölda annarra grófra lögbrota, svo sem nauðganir og brottnám á fólki. Alls eru málin 436 talsins,
sagði Patrick Ungsäter yfirmaður rannsóknamála Stokkhólmslögreglunnar við norska ríkisútvarpið NRK.
Síðustu daga hefur ítrekað komið til tilfella þar sem skotvopnum var beitt og við höfum séð fimm manndráp á síðustu dögum. Þetta er háskaleg þróun og mjög alvarleg. Við höfum því beðið ríkislögreglustjóraembættið um liðsauka,
sagði Ulf Johanson lögreglustjóri Stokkhólmsborgar.
Við erum að kortleggja þörfina fyrir mannafla. Það gæti snúist um borgaralega klædda lögreglumenn, rannsóknarlögreglumenn og búningaklætt lögreglulið.
Stokkhólmslögreglan segir að ofbeldið snúist fyrst og fremst um uppgjör og átök milli glæpahópa. Hættan hafi ekki aukist fyrir almenning en unnið sé að því að tryggja öryggi venjulegra borgara.
Nú standa yfir tólf tilfelli þar sem glæpahópar takast á og hætta er talin á að framin verði morð. Við höfum lagt hald á mikinn fjölda Kalashnikov-hríðskotariffla, handsprengjur og skammbyssur. Það er erfitt að leggja mat á hve mörg morð við höfum komið í veg fyrir,
er haft eftir Gunnari Appelgren aðgerðarstjóri hjá Stokkhólmslögreglunni. Í lok síðasta árs gerði Stokkhólmslögreglan upptæka 17 hríðskotariffla í einni og sömu aðgerðinni. Lögreglumenn segja að kaupendur þessar vopni fái oft handsprengjur með í kaupbæti.
Yfirmenn Stokkhólmslögreglunnar segast ekki geta útilokað að að það komi til nýrra ofbeldisbrota.