Þetta tengist umfjöllun um Grjótaþorpið sem verður í Kiljunni á næstunni. Ég hafði spurnir af því að til væri líkan af Aðalstrætinu og Grjótaþorpi eins og það leit út á síðustu áratugum 19. aldar. Eftir nokkra eftirgrennslan fannst það í geymslu hjá Borgarsögusafni.
Það sem ég var fyrst og fremst að leita að er hvernig Glasgow var útlits. Þetta var stærsta hús bæjarins á sínum tíma, reist árið 1862, af breskum kaupmanni, P.L. Henderson. Verslunin fór á hausinn á fáum árum, en húsið var notað til margra hluta. Herbergin voru meira en fjörutíu talsins, þarna voru íbúðir, þarna starfaði sjómannaklúbbur sem átti að halda sjómönnum frá brennivínsbölinu, þar lágu frami bækur, spil og töfl, og þarna var haldin það sem líklega er fyrsta eiginlega málverkasýning á Íslandi, það voru myndir eftir Þórarin B. Þorláksson. Um tíma var Glasgow í eigu Einars Benediktssonar og þarna var blað hans, Dagskrá, prentað.
Einar bjó um skeið í Glasgow sjálfur, en þar var líka til húsa einn tötralegasti íbúi Reykjavíkur, vatnsberinn Sæfinnur með sextán skó.
Við sjáum hvað húsið hefur verið stórt og glæsilegt, það var úr timbri en brann til kaldra kola 1903. Eldurinn mun hafa komið upp í vindlagerð sem var í húsinu.
Tvö önnur hús á myndinni eru kunnugleg. Rauða stóra húsið er Vinaminni sem enn stendur en gula húsið við hliðina á, með tveimur strompum, er Norska bakaríið svokallað á horni Fischersunds og Mjóstætis.
Hér er svo önnur mynd sem er tekin er af hluta líkansins. Þarna sést Glasgow í allri sinni dýrð. Húsið fyrir framan stendur enn og kallaðist Liverpool. Nú er þar til húsa kaffihúsið Stofan. Vinsælt var að nefna hús í bænum eftir borgum í Bretlandi, því þarna rétt hjá reis líka hús sem kallast Aberdeen og er enn á sínum stað.
Hér er svo ljósmynd sem tekin er í Grófinni um 1890. Þarna má sjá Glasgow og Vesturgötuna þar sem hún liggur út með sjó. Myndin sýnir glöggt hversu sjávarsíðan í Reykjavík hefur tekið miklum breytingum. Þarna nær fjaran nánast upp að Vesturgötunni.